Sælt veri fókið
Veðurblíðan æltar engan endi að taka. Reyndar féllu nokkrir regndropar rétt fyrir kvöldmat við mikla gleði gróðursins. Dagurinn hefur gengið vel sem fyrr. Knattspyrnu, frjálsum íþróttum og bátum voru gerð góð skil í dag. M.a. var keppt í hástökki og búnaðurinn fluttur undir bert loft. Eftir kaffi fóru nær allir drengirnir í leik sem kallast hermannaleikur. Þetta er leikur sem hefur verið iðkaður um áratugaskeið. Gekk lengi vel undir nafninu Indíánaleikur. Sumir feður og afar muna e.t.v. eftir honum. Þeim er skipt í tvö lið sem takast á eftir ákveðnum reglum og reyna að koma fána sínum á tiltekið landsvæði. Þessi leikur fær blóðið heldur betur til að hreyfast. Leikurinn reynir á skipulag, snerpu, úthald, samstöðu og leikgleði. Þessi leikur er stundum á feðgahelgum og þá er nú eins gott að vara sig á pöbbunum sem gefa drengjunum ekkert eftir. Stundum velti ég fyrir mér hvort sumir drengir séu fiskar en þeir una sér löngum stundum við busl í vatninu. Ylja sér síðan á milli í litlu fiskikari með volgu vatni. Í kvöld er hæfileikasýning þar sem þeir fá tækifæri til að stíga á stokk og láta ljós sitt skína öðrum til ánægju. Það verður spennandi að fylgjast með því.
Ég nefndi í gær þær kynslóðir sem hér hafa dvalið. Það er dýrmætt fyrir drengina að upplifa sýnishorn af æsku feðra sinna. Margt er hér í afar föstum skorðum og hefur verið um áratugaskeið. Sumir söngvar hafa verið sungnir frá fyrstu árum starfsins og fókusinn á fræðslu um kristna trú og gildi. Það má segja að markmiðin í boðuninni séu tvö. Annars vegar að kenna þeim að fletta upp í Nýja testamentinu og hins vegar að kenna þeim að tileinka sér bænalíf. Þetta er svipað og að kenna manni að veiða í stað þess að gefa honum einu sinni að borða. Flestir fá að gjöf Nýja testamenti frá Gideonfélaginu í 5. bekk. Því miður hafa nokkrir skólar í Reykjavík lokað á heimsóknir Gideonmanna og á ég afar bágt með að skilja þá ákvörðun. Innihald Nýja testamentisins er engu að síður einn mesti áhrifavaldur í vestrænu samfélagi og væri að mínu mati stór skaði ef hinar kristnu rætur í samfélaginu myndu trosna með einum eða öðrum hætti. Í þessum flokki leggjum við mikla áherslu á náungakærleikann og boðskap Jesú um það að við ættum að elska hvert annað. Gullna reglan, um að koma fram við náungann eins og við viljum að náunginn komi fram við okkur er á vissan hátt í forgrunni í þessum flokki. Þar er komið inn á dagleg samskipti á heimilum, skólum, fjallað um einelti og í raun flesta þá fjölmörgu snertifleti sem daglegt líf hefur í för með sér. Flestir drengirnir hafa orðið vitni að ranglæti og vita afskaplega vel hvernig þeir vilja að komið sé fram við þá. En kæru foreldrar. Nú eru þeir búnir að gista þrjár nætur og eiga bara tvær nætur eftir. Þeir eru því búnir með rúmlega helminginn. Ég veit að þið hlakkið til að sjá þá. Kær kveðja, Sigurður Grétar