Sælt veri fólkið.  Þegar þessi orð eru rituð eru drengirnir í óða önn að pakka.  Sumir  pökkuðu reyndar flestu í morgun.  Veðrið leikur ennþá við okkur.  Í gær var mikið um dýrðir.  Meðal annars svo kallaður foringjaleikur í knattspyrnu.  Þá spila tvö úrvalslið drengja við lið foringja.  Óhætt er að segja að drengirnir hafi komið okkur í opna skjöldu því við þurftum að hafa okkur alla við.  Foringjar réttsvo unnu leikinn sem er fréttnæmt í ljósi þess að þetta eru yngstu drengirnir.  Foringjarnir eru nú þegar farnir að kvíða því að fá eldri drengi til að keppa við.  Í gærkvöldi var veilsumatur, steik, brúnaðar kartöflur, grænar baunir ofl.  Síðan var hátíðarkvöldvaka þar sem farandbikarar voru afhentir, keppt í biblíuspurningakeppni, sjónvarp lindarrjóður og margt fleira að ógleymdri hugvekju kvöldsins.  Drengirnir sofnuðu vært og björt sumarnóttin umlukti Vatnaskóg enn eina ferðina.  Rétt er að láta foreldra vita af því að hægt er að kaupa glæsilega Puma Vatnaskógarboli við heimkomu eða á skrifstofunni í næstu viku.  Þeir kosta kr. 2500.  Eins vek ég athygli á FJÖLSKYLDUHELGI í sumar um miðjan júlí.  Þetta er frábært tækifæri fyrir alla fjölskylduna að koma saman í Vatnaskógi, leyfa drengjunum að sýna allt og kenna á allt, upplifa staðinn saman.  Allir geta gist í húsunum enda hugsað sem notaleg helgi með 60-100 manns.  Allur matur innifalinn.  Nánari upplýsingar í flokkaskránni og á skrifstofunni.  Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er uppá fjölskylduflokk að sumri.  Einnig leyfi ég mér að minnast á Verslunarmannhelgina sem er glæsileg útihátíð fyrir alla fjölskylduna.  Nefnist hún Sæludagar í Vatnaskógi.

Varðandi óskilamuni.   Ef þið saknið einhvers eftir heimkomu má hafa samband við skrifstofuna.  Eins ef eitthvað hefur óviljandi komið heim með ykkar dreng þætti okkur vænt um að því væri skilað á skrifstofuna.

Myndir er hægt að sjá hér http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157630053367887/

Þið getið verið stolt af drengjunum ykkar.  Þeir voru heimilum sínum til sóma.  Vonandi koma flestir þeirra aftur að ári.  Guð geymi ykkur. Takk fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkar.  Við gerðum okkar besta :).  Með kveðju, Sigurður Grétar Sigurðsson, f0rstöðumaður.