Vatnaskógur, mánudagurinn 16. júlí 2012

57 galvaskir og prúðir drengir komu í dag í seinni ævintýraflokk þessa sumars. Er þetta elsti strákaflokkurinn sem dvelur í Vatnaskógi þetta sumarið. Margir reyndir Skógarmenn eru í hópnum en einnig er talsverður hópur af drengjum sem er að mæta í sinn fyrsta drengjaflokk. Við buðum þá sérstaklega velkomna til okkar.

Hoppað í hyl í Glammastaðagili

Hoppað í hyl í Glammastaðagili

 

Rútuferðin gekk vel, rútan keyrði fyrir fjörð í blíðskaparveðri og á leiðinni sagði ég drengjunum frá helstu fellum, fjöllum og ám sem bara fyrir augu með sögulegu ívafi.

Drengirnir sitja við fimm borð í matsalnum og þeir gista allir í Birkiskála. Í hádegismat voru sænskar kjötböllur með kúskús, grænmeti og heimagerðri rabarbarasultu. Vegna einstakrar veðurblíðum biðum við ekki boðanna heldur fórum við með alla drengina í hópferð hinum megin við vatnið í gil sem heitir Glammastaðagil. Þar var í boði að hoppa í djúpan og góðan hyl eða renna sér niður fossinn. Á leiðinni til baka var stoppað í laut við ána, blandaður djús og gætt sér á gerbollu og kökusneið. Sólin skein í heiði og nýbakaðir gríslingarnir komu sælir til baka í Skóginn og var frjáls tími fram að kvöldmat.

Í kvöldmat var hið rammíslenska Vatnaskógarskyr og brauð með áleggi. Eftir mat var frjáls tími og var margt í boði: stangartennis, pool-mót, kúluvarp, íþróttahúsið var opið og einnig var hægt að vaða við bátaskýlið. Svo má ekki gleyma því að hin víðfræga Svínadalsdeild í knattspyrnu hófst með þremur leikjum.

Kvöldvaka var kl. 21 og var mikið sungið. Bikarar flokksins voru kynntir, fyrsti flutningur á framhaldssögu fór fram, skemmtiatriði frá foringjum og svo endaði kvöldvakan á hugleiðingu um upphaf starfs KFUM og KFUK á Íslandi, sr. Friðrik og fyrsta flokkinn sem fór gangandi í Vatnaskógi í ágúst 1923. Svo var kvöldkaffi og kapellustund eftir það fyrir þá sem vildu. Ró var komin í skálanna um kl. hálftólf.

Flokkurinn byrjar vel, strákarnir eru glaðir og hegðun þeirra er góð.

Í dag var heiðskírt, hægur vindur og hiti í 18-20°C. Eftir hádegi var hæg hafgola úr vestri. Um kvöldið kólnaði hratt í logninu og um nóttina var hiti 4-5°C.

Myndir úr flokknum má sjá hér.

Gengið yfir ánna sem rennur úr Eyrarvatni

Kær kveðja,

Salvar Geir Guðgeirsson, forstöðumaður.