Miðvikudagurinn 18. júlí 2012.

Drengir voru vaktir kl. 9:30, þeir fengu að sofa aðeins lengur en í gær vegna dagskrárinnar í gærkvöldi, enda voru þeir orðnir smá lúnir þegar við vöktum þá. Í morgunmat voru hafrahringir og kornflögur, með mjólk og súrmjólk. Svo var fánahylling, morgunstund og biblíulestur. Frjáls tími fram að hádegismat en þá var boðið upp á plokkfisk, þrumara (rúgbrauð) og salat.

Kassabílarallý er vinsælt. Boðið var upp á rallý í kringum Gamla skála á okkar sérhönnuðu Vatnaskógarkassabílum.

Strákarnir í útilegunni komu tilbaka rétt fyrir hádegið. Þeir voru sælir og glaðir. Útilegan gekk vel. Það kom smá skúr á þá um kl. 7 um morguninn en annars var þurrt og hlýtt um nóttina.

Í dag hefur verið mikið á dagskrá að venju. Má þar nefna kassabílarallý, hástökk og langstökk. Bátar hafa verið vinsælir og þeir sem hafa viljað vaða og leika sér í vatninu hafa gert það. Svínadalsdeildin í knattspyrnu hélt áfram. 7. borð vann þá keppni. Einnig var leikin bikarkeppni í knattspyrnu og 7. borð vann hana einnig. Margir eru líka að smíða og alltaf er vinsælt að koma við í íþróttahúsinu. Einnig er listakeppni í gangi allan flokkinn. Nokkrir strákanna hafa tjáð sig með ljóðum til eldhússtúlknanna og til matvinnunganna okkar sem vaska upp og hafa einnig sumir gefið þeim blóm. Hefur það mælst mjög vel fyrir hjá stúlkunum.

Ég og ráðskonan, Valborg Rut, skruppum til vina okkar á bænum Ferstikla í Hvalfjarðarsveit og fengum að ná í rabbabara en við höfum undanfarið búið til okkar eigin rabbabarasultu sem er t.d. í boði með kjötbollum. Í kvöldmat var svo pastaréttur, með sósu, kjöti og heitu brauði.

Það er alltaf líf og fjör á kvöldvökunum. Mikið sungið við arineld, þ.á.m. er margir gamlir Skógarmannasöngvar.

Kvöldvakan var skemmtileg að venju. Í þetta sinn sáu eldhússtúlkurnar um skemmtiatriðið og líkaði strákunum það vel. Svo var framhaldssaga um hugleiðing um miskunnsama Samverjann. Mikið sungið að venju við snarkið í arineldinum.

Áfram er gott veður þó það sé ekki brakandi blíða eins og tvo fyrstu dagana. Það hefur verið alskýjað, hægur vestanvindur og hiti 14-17°C. Það kom smá skúr fyrir hádegið annars var þurrt. Um nóttina var svo 11-12°C.

Nýjar myndir komnar inn. Myndir úr flokknum má sjá hér:

Kær kveðja úr Lindarrjóðri,

Salvar Geir Guðgeirsson, forstöðumaður.