Fimmtudagurinn 19. júlí 2012.

Við foringjar vöknuðum snemma í dag til að undirbúa hermannaleik með drengjunum. Við vöktum drengina í skála kl. 8 um morguninn með háværri tónlist og köllum. Drengirnir klæddu sig fljótt og við skiptum þeim í tvö aðskilin lið sem svo „börðust“ á hlaðinu við skálana. Gekk sá leikur vel og var þetta óvænt byrjun á síðasta heila degi drengjanna. En sá dagur er nefndur veisludagur því hann endar á veislukvöldmáltíð og svo í beinu framhaldi er löng kvöldvaka þar sem flokkurinn er gerður upp. Kl. 9 var morgunmatur og var gott að fá heitt kakó og brauð eftir útiveruna enda rigndi smá á okkur. Svo var hefðbundin dagskrá.

Helmingur af strákunum bíður eftir því að fara í bardaga í morgunhermannaleik.

Í hádegismat var hin víðfræga ávaxtasúrmjólk ala Vatnaskógur, íblönduð með ferskum ávöxtum. Strákarnir fengu brauð og álegg og rúgbrauð með.

Í dag hefur verið margvísleg dagskrá í boði. Allir drengir fengu tækifæri á tuðrudrátt úti á vatni, sem var dregin af mótorbát okkar. Fyllsta öryggis var gætt og þeir sem fóru á tuðruna voru að sjálfsögðu í björgunarvestum allan tímann. Einnig var boðið upp á blauta þrautabraut við íþróttahúsið í anda sjónvarpsþáttanna Vipeout sem margir spreyttu sig á. Einnig er hefð fyrir því að á veisludegi sé hlaupið brekkuhlaup. Er þá hlaupið upp veginn að hliðinu inn á landið og tilbaka og er þetta hlaup 2 km. Eftir kaffi spilaði lið foringja við tvö úrvalslið drengja, og fengu þau að spila sitt hvorn hálfleikinn við okkur. Mér til undrunar náðum við að sigra drengina samanlagt 4-2 en drengirnir léku vel og sýndu flott og samhæft spil sín á milli

Kl. sjö um kvöldið hófst borðhald í matsalnum. Búið var að dekka eitt borðið með dúk og var það gert að hlaðborði. Í kvöldmat var gljáð Bayonne-skinka með brúnuðum kartöflum, grænum baunum, maísbaunum og fersku salati og sósu. Var þetta hin glæsilegasta máltíð og drukku drengirnir tvö glös á mann af ropvatni með.

Svo hófst kvöldvakan þar sem margir dagskrárliðir voru í boði. Bikaraafhending, úrslit í biblíuspurningakeppninni sem 1. borð vann, lokalestur á framhaldssögunni, og svo fullt af skemmtiatriðum, þ.á.m. hið óborganlega Sjónvarp Lindarrjóður. Drengirnir skemmtu sér mjög vel. Svo var kvöldkaffi kl. 11 og eftir það var boðið upp á miðnæturleik sem heitir Orusta og var sá leikur háður í salnum í íþróttahúsinu. Dagskrá lauk um kl. hálfeitt og ró var komin í skála um kl. eitt.

Í dag hefur verið alskýjað, hægur vestanvindur og hiti 14-15°C. Smá skúr kom snemma um morguninn og á meðan kvöldvaka stóð yfir komu miklar gróðrarskúrir, annars þurrt. Um nóttina var svo 9-11°C.

 

Veisludagur endaði á miðnæturorustu í salnum í íþróttahúsinu.

Föstudagurinn 20. júlí 2012.

Drengir voru vaktir kl. 9. Voru þeir þreyttir eftir langan og skemmtilegan dag í gær.

Nú er frjáls tími og brátt fá þeir girnilegan hádegisverð, Vatnaskógarflatbökur og djús.

Áætlað er að rútan fari héðan kl. 16 og verði komin á Holtaveginn um kl. 17.

Þessi flokkur hefur gengið að mestu leyti mjög vel. Strákarnir hafa staðið sig vel og þeir hafa skemmt sér mjög vel. Veður hefur verið mjög gott, hlýtt og hægviðrasamt. Ég vona að þeir komi sælir og glaðir heim, hafi lært eitthvað nýtt og muni eiga sælar minningar um Vatnaskóg í framtíðinni.

Fyrir hönd míns góða starfshóps þá þakka ég fyrir að hafa fengið að sjá um drengina ykkar þessa vikuna.

Kær kveðja úr Lindarrjóðri,

Salvar Geir Guðgeirsson, forstöðumaður.

 

P.s. Síðasti skammturinn af myndum er kominn inn. Myndir úr flokknum má sjá hér.