Í gær var heldur betur mikið fjör í skóginum. Eins og alltaf þá var nóg um að vera en hápunktur dagsins var án efa þegar íþróttasalnum okkkar var breytt í orrustuvöll. Hoppukastalar voru settir upp og farið var í hinn stórskemmtilega leik orrustu. Tvö lið etja kappi við hvort annað og fá mjúka pappírsbolta sem virka eins og skot. Ef þú færð bolta í þig, ertu úr leik.

Boðið var upp á ferðir á mótorbát um vatnið, þar sem of mikill vindur hefur verið og ekki hefur verið hægt að opna árabátana.

Íþróttasalnum var breytt í orrustuvöll.

Kvöldvakan í gær var skemmtileg að vanda. Þar var flutt stutt gamanleikrit við mikinn fögnuð viðstaddra. Þá var framhaldssaga sögð og strákarnir fengu að heyra hugleiðingu um kristniboð í Eþíópíu. Það var einnig mikið sungið og strákarnir eru duglegir að taka undir, enda flestir búnir að læra lögin nú þegar. Strákarnir voru þreyttir en glaðir eftir daginn og áttu ekki í miklum erfiðleikum með að sofna í gærkvöldi.

Tilraunir voru gerðar til loftmyndatöku í gær.

Í morgun voru drengirnir vaktir kl. 8:30. Morgunmatur hófst klukkan 9:00 og þar voru nýjir skógarmenn boðnir velkomnir í hópinn, en eftir tvær nætur í dvalarflokki verða menn að skógarmönnum. Eftir morgunmat var farið í raðir fyrir framan gamla skála og fáninn dreginn að húni. Fengum við óvænt og skemmtilegt undirspil á trompet frá Degi matvinnungi.

Nú er algjört logn í Vatnaskógi og er því búið að opna bátana. Þetta er frábært veður til að prófa að róa á vatninu og má búast við að flestir drengjanna muni skella sér út á vatn í dag.

Nýjar myndir úr flokknum birtast daglega og má nálgast á myndasíðunni okkar.

 

Með kveðju úr Lindarrjóðri,

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður.