Fjölskylduhátíðin Sæludagar var haldin í Vatnaskógi á vegum Skógarmanna KFUM ásamt KFUM og KFUK á Íslandi nú um nýliðna verslunarmannahelgi.
Hátíðin gekk vel fyrir sig og góð stemmning ríkti, og skartaði Vatnaskógur sínu fegursta í veðurblíðunni sem lék við gesti. Talið er að alls 1300-1500 manns hafi heimsótt svæðið um helgina.

Fjölmargir skemmtilegir dagskrárliðir voru í boði, og ríkti ánægja meðal Sæludagagesta með þá. Meðal annars voru tónleikar og ball með hljómsveitinni Tilviljun?, ljúffengar veitingar í Café Lindarrjóðri, vatnafjör, unglingadagskrá, atriði frá Ten Sing, Söng – og hæfileikasýning barnanna, fræðslustundir fyrir fullorðna, tónleikar með Hundi í óskilum, fjörugar kvöldvökur, guðsþjónusta, grillveisla og ýmislegt fleira.
Gestir á Sæludögum gistu ýmist í tjöldum, húsvögnum eða innandyra. Gisting í Nýja Birkiskála, nýbyggingu staðarins var í fyrsta skipti nýtt, við góðar undirtektir.
Skógarmenn þakka Sæludagagestum fyrir komuna, og einnig eru öllum sjálfboðaliðum og starfsmönnum sem unnu að undirbúningi, framkvæmd og frágangi hátíðarinnar þakkað kærlega fyrir sitt framlag í að láta hana verða að veruleika.

Hér má sjá nokkrar myndir frá Sæludögum:http://www.flickr.com//photos/kfum-kfuk-island/sets/72157630969320206/show/ (Ljósmyndari: Lára Halla Sigurðardóttir)

 

Ljósmyndir eftir Láru Höllu Sigurðardóttur (efri) og Tilviljun? (neðri).