Þá eru nýliðarnir okkar orðnir Skógarmenn.  Þeir drengir sem eru að koma hingað í fyrsta sinn þurfa að gista í tvær nætur í flokki á vegum Skógarmanna til að kallast Skógarmenn.  Til hamingju með það kæru foreldrar.  Þegar þessi orð eru rituð á miðvikudagsmorgni er logn og vatnið spegilslétt.  Núna loksins er hægt að hafa bátana opna sem er orðið langþráð.  Drengirnir eru ljúfir sem lömb og sváfu eins og englar í nótt enda þreyttir eftir daginn.  Þetta eru öndvegis söngmenn og njótum við þess kvölds og morgna að syngja saman.  Margir hafa tekið þátt í íþróttum, knattspyrnu, verið á smíðastofunni, farið í íþróttahúsið, verið í útileikjum, á kassabílum, í billiard, borðtennis, fótboltaspili, gripið í bók eða blað osv.frv.  Alltaf nóg við að vera í Vatnaskógi.  Skógurinn heillar enda ævintýraheimur útaf fyrir sig.  Foreldrar geta andað rólega en ég veit að það er sumum foreldrum erfitt að senda barnið í fyrsta sinn í sumarbúðir.  Það eru 25 ár síðan ég byrjaði að vinna hér (nota rödd eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni) og því er ekki ólíklegt að hér séu synir drengja sem voru hér eftir árið 1989.  Á morgnana eru stuttar fræðslustundir um tiltekna texta úr Biblíunni og síðan fer hvert borð með sínum foringja og flettir upp 3-4 biblíutextum.  Markmiðið með því er að kenna drengjunum að nota Nýja testamentið sem börn í 5. bekk hvert ár fá að gjöf frá Gideonfélaginu.  Þar fletta þeir upp nokkrum af þeim fjölmörgu perlum sem Nýja testamentið geymir.  Allt gengur vel.  Nettenging er því miður misgóð.  Við reynum að setja inn myndir í dag.  Kveðja, Sigurður Grétar Sigurðsson, forstöðumaður.

13. júní – myndir komnar á slóð http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634097607153/