Heil og sæl öll!
Nú er bongóblíða. Hægt er að sjá myndir með því að fara á forsíðu kfum.is og velja myndir. Þar eru nokkrar myndir frá 2. flokki en einnig myndir úr öðrum sumarbúðum. Engin má móðgast þó ekki sé mynd af þeirra dreng. Þeir eru jú 100 á svæðinu. Bátarnir voru mikið notaðir í gær og eins nú. Veður er gott, hlýtt og milt. Það er athyglisvert hve margir sækja í vatnið. Það er eins og þeir séu að leita að einhverju frumstæðu, einhverju frumeðli lífsins þar sem þeir svamla um í hæfilega köldu vatninu, busla, hoppa og skemmta sér. Það eru t.d. mun fleiri sem lauga sig í vatninu en klifra í trjám þó talið sé að maðurinn hafi komið niður úr trjánum mun seinna en uppúr vatninu :). Frjálsar íþróttir eru á sínum stað og góð þátttaka. Margir stíga sín fyrstu skref á íþróttaferli sínum einmitt í Vatnaskógi. Kynnast hinum ýmsu greinum og uppgötva e.t.v. áður óþekkta styrkleika. Útileikir í skóginum, kassabílarnir, fótboltinn, vatnið, íþróttahúsið, allt á fullu. Líkaminn þannig ræktaður á fullu. Sál og andi ræktuð með söng, biblíulestrum og bænalífi. Tugir drengja sækja frjálsu helgistundirnar í kapellunni á kvöldin. Þar er notaleg stund. Í morgun var farið yfir dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann. Þeir höfðu ólíkar hugmyndir um það hver væri náungi þeirra en lærðu fljótt og vel að allir menn eru náungar okkar og við eigum að rétta náunganum hjálparhönd sé það á okkar færi, óháð búsetu, þjóðerni eða kynþætti. Hér að neðan kemur hugmyndalisti fyrir foreldra sem eru orðnir eirðarlausir í drengjaleysinu. a) fara í bíó, b) fara á kaffihús, c) fara í fjallgöngu, d) pör og hjón geta dekrað við hvort annað, e) fara á söfn sem ykkur langar að sjá en drengurinn hefði ekki áhuga á. Svona mætti lengi telja. Það eru margir naflastrengir að slitna þessa dagna og margir drengir að vinna mikla sigra á sjálfum sér, þroskast og mannast. Guð geymi ykkur. Kveðja, Sigurður Grétar