Heilt veri fólkið!  A.m.k. þrír naflastrengir slitnuðu í gær :).  Það þýðir að viðkomandi drengir komust yfir heimþrá sem hrjáði þá.  Það er ánægjulegt að verða vitni að slíkum sigrum því margir eru jú að gista í umsjá ókunnugra í fyrsta sinn.  Vatnaskógur er m.a. skóli í því að verða að manni, að vaxa og þroskast sem sjálfstæður einstaklingur, að læra að hugsa um eigin þarfir, skipta um föt þegar þarf, hengja upp blautu fötin sín, ganga frá óhreinum fötum, passa uppá rúmið sitt, bregðast við þegar skórnir blotna, borða þann mat sem er á boðstólnum (sem er reyndar mjög góður) ellegar bíða með að borða þar til í næstu máltíð.  Svona mætti áfram telja.  Sumum drengjum finnst þeir alltaf vera að borða enda eru fimm máltíðir á dag.  Það veitir reyndar ekki af fyrir suma.  Hér er starfsfólk í eldhúsi sem framreiðir fyrsta flokks mat og m.a. þrjár sortir af bakkelsi með kaffinu hvern dag.  Fáir hafa upplifað slíkt nema á sunnudögum hjá ömmu og afa eða þegar mamma eða pabbi eru í fæðingarorlofi.  Veðrið í dag er dásamlegt, besti dagurinn hingað til enn sem komið er.  Allir hafa getað verið á bátum sem það vilja og buslað og margt fleira.  Í gær var sett skógarmet í hástökki í þessum aldurshóp.  Benjamín Jafet Sigurðarson 11 ára stökk 141 cm. og bætti 22 ára gamalt skógarmet um 3 cm.  Það er ekki í hverjum flokki sem skógarmet í íþróttum eru slegin.  Vonandi tekst okkur að setja inn fleiri myndir í dag.  Nú eru bara tvær nætur eftir.  Tíminn er fljótur að liða.  Ég vona að allir foreldrar séu búnir að komast yfir aðskilnaðarkvíðann.  Þið megið ekki móðgast þó drengurinn ykkar hafi ekki fengið heimþrá :).  Hann elskar ykkur samt :).  Kær kveðja, Sigurður Grétar Sigurðsson