Kæru foreldrar og drengir! Eflaust hafa margir foreldrar fengið það á tilfinninguna að drengirnir vildu ekki koma heim í ljósi þess að rútunum seinkaði talsvert. Kom það til af því að önnur rútan skilaði sér ekki í Vatnaskóg á réttum tíma og verður skýringa á því leitað eftir helgi. Vonandi olli það foreldrum ekki óþægindum. Hins vegar komust allir til síns heima ….. a.m.k. er ég ekki búin að fá neitt símtal um að það vanti dreng. Margir unnu mikla sigra á sjálfum sér, sigruðust á heimþrá sem er eðlileg þegar farið er í fyrsta sinn að heiman í umsjá ókunnugra. Andinn í hópnum var góður. Starfsmannahópurinn var samstilltur og gekk í takt. Veðrið lék við okkur flesta dagana þó rok hafi sett strik í reikninginn fyrstu dagana. Drengirnir voru virkir í dagskránni og nýttu vel þau tilboð sem voru í gangi hverju sinni. Þeir munu vafalaust deila með ykkur reynslu sinni næstu daga. Ýmis tilboð eru framundan ef fjölskyldur hafa áhuga. Um miðjan júlí er ein fjölskylduhelgi (12.-14. júlí). Þá geta fjölskyldur komið og fengið hver sitt herbergið, tekið þátt í dæmigerðri vatnaskógardagskrá, notið staðarins og leiktækja, losnað við áhyggjur af matseld ofl. ofl. Þetta eru notalegar helgar með 50-80 manns þar sem „tjaldstæðatroðningi“ er gefið langt nef um hásumar 🙂 . Verði er stillt í hóf. Um mánaðarmótin ágúst/september er feðgaflokkur fyrir 7-99 ára. Þangað koma drengir með feðrum, stjúpfeðrum, öfum eða öðrum fullorðnum körlum sem eru áhrifavaldar og mikilvægir í þeirra lífi. Þetta eru frábærar helgar. Sumir drengir nota tækifærið til að kynna Vatnaskóg fyrir feðrum sínum og sumir feður nota tækifærið til að kynna staðinn fyrir sonum sínum. Það kemur fyrir að þrír ættliðir komi saman en hafa farið upp í fjóra. Ekki má svo gleyma hinum geysivinsælu Sæludögum um verslunarmannahelgina sem er hæfilega stór útihátíð fyrir alla fjölskylduna. Íþróttahúsinu er breytt í samkomusal fyrir kvöldvökur, tónleika ofl., varðeldur, vatnafjör, íþróttir, leiktæki, hoppukastalar ofl. ofl. Fólk í húsum, tjöldum, fellihýsum, húsbílum osv.frv.
En kæru foreldrar. Takk fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkar. Ef þið hafið einhverjar athugasemdir þá skuluð þið endilega láta okkur vita. Ef þið eruð ánægð skuluð þið endilega láta vini ykkar vita :). Kær kveðja, Sigurður Grétar Sigurðsson, forstöðumaður 2. flokk.