IMG_8142Kjaftfullur flokkur í Vatnaskógi þessa vikuna. 98 10 – 12 ára drengir á staðnum, reiðubúnir til að hafa það gaman. U.þ.b. helmingur drengjanna eru að koma hingað í fyrsta skiptið og þurftu smá leiðbeiningar um svæðið fyrst um sinn. Þeir eru þó snöggir að læra og strax á morgunstund í morgun var vel tekið undir í öllum söngvum. Veðrið í gær var blautt, mjög blautt. Það ringdi töluvert framan af degi og eftir það var loftið mjög rakt. Einn drengurinn kom með skemmtilegt gullkorn og sagði að fjallið hinum megin við vatnið (Kamburinn) væri með SWAG. Það væri eins og fjallið væri með þykka húfu og sítt hár, langt niður fyrir axlir. Það var s.s. mjög lágskýjað, en hitinn hélt sér nokkuð góðum ásamt því að það var logn.

Drengirnir hér eru mjög virkir og eru duglegir að taka þátt í dagskrártilboðum. Þeir mæta vel í frjálsar íþróttir, fótboltinn rúllar allan daginn og bátarnir eru kjaftfullir ásamt því að nokkur skópör hafa blotnað strax á fyrsta degi. Maður getur nefnilega alveg lent í því að detta alveg „óvart“ í vatnið af bryggjunni. Kvöldvakan var vel heppnuð þar sem leikhópurinn Villiöndin steig á svið og átti enn einn leiksigurinn hér í Vatnaskógi. Vel var tekið undir söng og var sögð framhaldssaga um drengina Brján og Nikka sem lenda í mörgum ævintýrum.

Athyglisverður hlutur gerðist svo eftir kvöldvökuna. Þá komu hingað menn klyfjaðir myndavélum og ljósum. Þeir eru að taka upp stuttmynd sem verður sýnd hér á Sæludögum um Verslunarmannahelgina en Vatnaskógur á einmitt 90 ára afmæli í ár og verður haldið upp á það með pompi og prakt þá helgi. Drengirnir voru mjög spenntir fyrir myndinni og var hluti hennar tekinn upp í matsalnum eftir kvöldvökuna og er óhætt að segja að strákarnir hafi staðið sig frábærlega og tóku þeir vel í allar athugasemdir leikstjórans.

Í morgun vöknuðum við svo við mikla sól, spegilslétt vatn og 15 stiga hita. Frábært veður  og byrjar dagurinn vel. Eftir morgunmat og biblíulestur fór fótboltinn aftur af stað og ævintýri beið þeirra úti á bátum. Fest var tuðra aftan í gúmmíbátinn og hún dregin á vatninu. Þetta er gríðarlega vinsæll viðburður og verður boðið upp á þetta áfram í dag svo allir fái örugglega að prófa. Dagurinn er spennandi og má vænta frekari frétta á morgun.

Eins og gengur og gerist fengu nokkrir heimþrá í gærkvöldi en foringjarnir hér eru þrautþjálfaðir og reyndir í því að takast á við þá drengi. Veita þeim stuðning og hlýju til að fara að sofa og safna orku fyrir nýjan dag. Í morgun leið öllum vel og hefur enginn komið til mín í dag og kvartað undan heimþrá, sem er vel. Foreldrar geta því andað rólega heima, vitandi að drengurinn sinn skemmtir sér vel í Vatnaskógi. Meiri fréttir koma inn á morgun og myndir má finna hér