IMG_8123Dagurinn einkenndist af sól og miklum hita framan af degi. Mikið fjör var við bátaskýlið og óðu drengirnir í vatninu, léku sér á bátum og voru dregnir á gúmmítuðru. Íþróttahúsið var lítið í notkun en þó eru alltaf einhverjir sem vilja leika sér inni. Sett var upp þrautabraut sem margir léku sér í framan af degi og vakti hún mikla athygli drengjanna. Pottarnir voru opnir fyrir þá sem vildu bursla í hlýju vatni frekar en köldu. Eftir kaffitímann byrjaði að draga hægt og rólega fyrir sólu en þó var áfram haldið að bursla og leika sér. Bátarnir voru opnir og keppt var í Vatnaskógarvíkingnum þar sem leitin að sterkasta drengnum í flokknum fer fram. Fótboltinn rúllaði sem fyrr og er hann vinsæll.

Um kvöldið var svo kvöldvaka þar sem drengirnir skemmtu sér konunglega yfir söng, framhaldssögu og leikriti. Ró var komin í skálana um 23:00 og gekk vel að svæfa drengina. Heimþrá er í algjöru lágmarki hjá langflestum enda eru þeir flestir dauðuppgefnir á kvöldin og steinsofa allir alveg til 8:30, s.s. í níu og hálfan tíma!

Myndir verða settar inn á myndasíðuna í kvöld og koma upplýsingar um daginn í dag í fyrramálið. Hafið það gott heima og vonandi leiðist ykkur ekki án stráksins. Ég get með vissu sagt að hér skemmta sér allir konunglega.

Arnór, forstöðumaður.