IMG_8156Rigning og 100% raki en so what. Það er ógeðslega gaman hérna. Bátarnir eru opnir og við vöðum bara samt! Reyndar er þetta svolítið þannig að maður hoppar út í og finnur fyrir ísköldu vatninu og eyðir síðan restinni af vaðtímanum í þægilega heitu keri sem er við bátaskýlið. Aðalmálið er að vera blautur en samt er heiti potturinn ekkert spennandi. Stráka-logic og hún meikar örugglega sense hjá þeim. Við erum búnir að vera duglegir að reka þá í sturtu og skipta um nærföt og sokka og núna ættu allir að vera búnir að gera það a.m.k. einu sinni (ég veit að þetta er erfitt en þetta eru nú einu sinni strákar 🙂

Þessi flokkur er alveg óvart að breytast í lítinn ævintýraflokk. Starfsfólkið hér er allt af vilja gert til að gera flokkinn ógleymanlegan fyrir drengina. Hermannaleikurinn sívinsæli var haldinn úti í Oddakoti, fótboltinn rúllaði, bátarnir sigldu og innileikirnir voru vinsælir. Eftir kvöldmat spiluðu foringjar svo við úrvalslið drengja í fótbolta og var leikurinn spennandi og skemmtilegur. Kvöldvakan var vel heppnuð en eftir hana byrjuðu ævintýrin. Við fengum heimsókn frá Albus Dumbledore og félögum úr Hogwarts-skóla. Áður en við vissum af var búið að skipta drengjunum í fjórar heimavistir og allir farnir af stað í Harry Potter ratleik um svæðið. Drengirnir lærðu galdrana expelliarmus (afvopnunargaldur), expecto patronum (verndunargaldur) og Relashio (leysigaldur). Þeir tóku próf í vörnum gegn myrku öflunum, lærðu Quidditch og heimsóttu Hagrid í skóginum. Þegar leið á leikinn byrjuðu vitsugur að minna á sig og grunur færðist yfir drengina að Þú-veist-hver væri að koma aftur. Frábært gullkorn kom frá einum drengnum þegar ein vitsugan kom svífandi að. Hann var nýbúinn í tíma hjá prófessor Lupin og þegar hann sá vitsuguna hrópaði hann yfir sig:  „AHH, ég man ekki galdurinn!! Ég er dauðadæmdur….“ Það vantaði sannarlega ekkert uppá að drengirnir lifðu sig inn í leikinn. Undir lokin þá birtist Vol…nei, ég meina Þú-veist hver og lokabardaginn átti sér stað. Hann var stuttur og snarpur, enda 98 drengir á móti einum. Óvinurinn var kláraður og drengirnir sungu á leiðinni til baka „Go home in a bodybag!“ Sem er vinsæll fótboltasöngur fyrir þá sem ekki þekkja til. Skemmtilegt mjög.

Allir fóru svo að sofa um 23:30 og sváfum við svo hálftíma lengur í morgun, til 09:00. Ég bætti við myndasíðuna okkar í morgun. Meira síðar!

http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634564529048/