Vakna, því vökumenn! Sváfum hálftíma lengur í morgun og það var gott, mjög gott. Dagurinn hófst á morgunmat, morgunfánahyllingu, morgunstund og morgunvakt. Þessi morgun var í fínu lagi og tók hádegismaturinn við klukkan 12. Veisludagurinn runninn upp og veðrið: Rigning og logn en þægilegur hiti. Eftir hádegismatinn var mikill fótbolti. Svínadalsdeildin var kláruð, pressulið og landslið (sem eru skipuð úrvalsliði drengja) mættust í fótboltaleik og eftir hann var vítaspyrnukeppni. Þátttakan var góð í boltanum og mikil stemning. Bátarnir voru opnir sem fyrr og íþróttahúsið. Eftir kaffi fóru útileikjaforingjar í enn eitt ævintýradæmið í þessum flokki. Í Oddakoti, sem er gamallt bæjarstæði austast í Vatnaskógi, má finna stórt og mikið drullusvað sem er rennandi blautt þessa dagana. Þangað fóru drengirnir í drulluslag sem lukkaðist mjög vel, gríðarleg stemning og eftir að allir voru búnir að maka sig út úr drullu var farið og vaðið í Oddakoti til að þrífa sig. Þar má finna sandströnd og hægt er að vaða langt út í vatnið og busla og skemmta sér.
Þegar heim var komið var komið að kvöldmat. Veislukvöldmatur þar sem boðið var upp á bayonne skinku, brúnaðar kartöflur, sósu og meððí. Drengirnir borðuðu vel og eftir matinn var veislukvöldvaka þar sem öllu var flaggað. Sjónvarp Lindarrjóður, með myndum úr flokknum, skonrokkið, leikrit, framhaldssaga, bikaraafhending o.fl. gerði kvöldvökuna langa og skemmtilega. Boðið var svo upp á kvöldkaffi eftir vökuna og síðan var farið að sofa. Heimþrá var í algjöru lágmarki en við lentum hins vegar í því að tveir drengir urðu alveg ómögulegir og gátu ekki sofnað. Ástæðan: Þeir vildu ekki fara frá Vatnaskógi!
Í morgun var svo vakið klukkan 09:00 og hófust flestir handa við að pakka niður. Núna er morgunstund búin og drengirnir eru á fullu að klára að pakka og gera sig klára fyrir brottför. Rúturnar munu leggja af stað frá Vatnaskógi kl: 16:00 og er gert ráð fyrir að við munum birtast á Holtavegi 28 kl. 17:00. Restin af myndunum mun koma inn í dag.
Góðar kveðjur.
Arnór forstöðumaður.