Brot af því sem drengirnir höfðu fyrir stafni síðan í hádeginu í gær:
– Úrvalslið drengjanna keppti knattspyrnuleik við lið foringja. Leikurinn var spennandi og endaði með því að drengirnir sigruðu.
– Miklar umræður sköpuðust um gærdaginn þar sem hann var á hvolfi, þ.e.a.s. byrjað var á kvöldhressingu og endað með morgundagskrá. Dagurinn endaði með fánahyllingu og morgunmat, drengjunum til mikillar skemmtunar.
– Í gærkvöldi var skemmtileg stund þar sem sungið var hátt og kátt. Sumir drengjanna léku í leikriti um miskunnsama Samverjann sem vakti mikla lukku. Fengu þeir að heyra um hversu viðamikið starf KFUM stendur fyrir um allan heim, enda eitt af stærstu æskulýðssamtökum heims.
– Ævintýrið á vatninu hélt áfram þar sem drengirnir voru dregnir á tuðru. Vissulega enduðu margir blautir.
– Hlaupið var víðavangshlaup hringinn í kringum vatnið þar sem vaða þarf tvo ósa. Hlaupagarpar flokksins tóku þátt og stóðu sig með prýði.
Í dag var vakið kl 08:30. Strax eftir morgunmat var hinn kunni hermannaleikur leikinn þar sem drengjunum er skipt í tvö lið. Markmiðið er að ná þvottaklemmum sem hanga á upphandlegg drengjanna og ná fána frá liði andstæðingsins.
Eftir hermannaleikinn var fánahylling og morgunstund sem eru lykildagskrárliðir í Vatnaskógi.
Í hádegismatinn í dag verður pasta.
Með kveðju,
Birgir forstöðumaður