Það var aldeilis fínt veður í gær hjá okkur í Vatnaskógi, sólin skein og það var nánast logn. Eftir hádegi fóru drengirnir út í Oddakot, þar sem baðströnd skógarmanna er staðsett. Á leiðinni út í Oddakot var stoppað í drullusvaði, þar sem ævintýragjarnir drengir fengu að leika sér og fara í „drulluslag“. Síðan fengu þeir að skola sig og vaða í vatninu.

IMG_8682

Vegna veðurs var ákveðið að færa kvöldvökuna upp í skógarkirkju, en það einskonar kvöldvökusalur undir berum himni. Flutt var tímamóta gamanleikrit af foringjum sem uppskar mikinn fögnuð viðstaddra. Einnig var flutt framhaldssaga og hugleiðing er fjallaði um þakklæti. Ákveðið var að gera tilraun við að poppa poppkorn fyrir mannskapinn á varðeldinum, það reyndist erfiðara en búist var við og verður önnur tilraun gerð í dag (í eldhúsinu).

Eldur

Drengirnir hvíldust vel í nótt og í matsalnum beið þeirra rjúkandi heitt kakó og brauð þegar þeir vöknuðu. Nú höfum við gist tvær nætur í Vatnaskógi og því hafa allir sem ekki hafa komið áður bæst í stóran hóp Skógarmanna. Eftir að hafa dregið fánann að húni var haldið á morgunstund, þar fengu strákarnir meðal annars að kynnast nokkrum biblíupersónum.

Dagurinn í dag verður spennandi og sólin heldur áfram að skína á okkur.

 

Með kveðju,

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður