Þá er flokkurinn senn á enda og munum við koma í bæinn í dag. Það er búið að vera mikið fjör og er það mál manna að þessir dagar í Vatnaskógi hafi verið mjög góðir, enda frábært veður, skemmtilegir drengir og nóg að gerast.

IMG_7125

Í gær var veisludagur hjá okkur og um kvöldið borðuðum við veislumat. Síðan var haldið út á kvöldvöku þar sem bikarar voru afhentir, leikrit var flutt og framhaldssagan var kláruð. Þá fóru úrslitin í biblíuspurningakeppninni fram og var það þriðja borð sem sigraði í æsispennandi keppni. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar sjónvarp Lindarrjóður var sýnt. Að þessu sinni var það í tveimur pörtum, annars vegar bein útsending þar sem flutt voru gamanmál um drengina úr þar til gerðu sjónvarpi. Seinni partur sjónvarpsins var einskonar annáll úr flokknum og var einnig mikið grín á þeim bænum, þessi partur varsýndur á stóru tjaldi í salnum okkar. Við fengum síðan að heyra um guðs orð og þakið ætlaði síðan að rifna af kofanum þegar foringjarnir fluttu nokkur vel valin Vatnaskógarlög í Skonrokkinu.

IMG_7136

Þó þetta sé síðasti dagurinn verður ekkert slakað á, nú eru bátarnir og íþróttahúsið opið ásamt því Hunger games  leikurinn (eltingarleikur) er í gangi. Í hádeginu verður Vatnaskógarpizza og verða sigurvegarar hegðunarkeppninnar krýndur.

IMG_7187

Fram að kaffi verður leynilegur dagskrárliður sem mun vonandi koma skemmtilega á óvart.

Fyrir hönd starfsfólks Vatnaskógar viljum þakka við fyrir frábæran flokk og vonumst við til að sjá sem flesta á næsta ári.

Við minnum á að hægt er að kaupa Vatnaskógarboli á Holtavegi 28 (þar sem rútan stoppar). Sérstök 90 ára afmælisútgáfa.

 

Með kveðju úr Lindarrjóðri,

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður