Hingað komu 30 drengir í dag í blíðskaparverði en norðaustanátt. Þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og búnir að borða hádegismat, spakk og hakketí, þá tók á móti þeim sneisafull dagskrá. Fótboltinn byrjaði að rúlla, íþróttahúsið var opið og einhver listaverk byrjuðu að myndast á smíðaverkstæðinu. Eftir ljúffenga nónhressingu fóru allir drengirnir austur í Costa del Oddakot, sem er gamalt bæjarstæði spölkorn frá Vatnaskógi. Þar má finna sandströnd þar sem hægt er að labba á tánum langt út í vatn og bursla og leika sér. Allir fóru með í þessa för og var mikið skemmt sér. Eftir kvöldmatinn hélt dagskráin áfram. Bátarnir opnuðu í fyrsta sinn í flokknum, svona rétt á meðan vindurinn snéri sér frá norðaustanátt og yfir í vestan.  Bátarnir voru vinsælir og fóru sennilega allir út á bát á þessari vakt. Kvöldvakan vakti svo mikla lukku og skemmtu drengirnir sér vel þar sem foringjarnir voru með leikrit, sögðu framhaldssögu, allir sungu saman og hlustuðu svo á hugleiðingu. Núna eru allir á leiðinni upp í rúm að sofa og gengur vel enda drengirnir þreyttir eftir daginn. Myndir koma inn á morgun.

Kveðja. Arnór, forstöðumaður.