Í dag var fyrsti dagur í hausti í Vatnaskógi. 7 gráðu hiti og hvöss norðaustanátt tók við okkur í morgun þar sem við fórum af stað inn í daginn. Inni í íþróttahúsi var boðið upp á þétta dagskrá. Borðtennismót hófst og sett var upp í hoppukastalaTarzanleik sem vakti gríðarlega mikla lukku meðal drengjanna. Boðið var upp á ferðir á mótorbátnum sem slógu í gegn og fengu margir drengir að blotna hressilega þá. Skundað var út í Oddakot eftir hádegismat þar sem hermannaleikurinn vinsæli var haldinn. Nú í kvöld eftir kvöldvökuna höfðu eldhússtelpurnar skellt í lummur, heitt kakó og meððí. Búið var að kveikja á kertum og haldin kósí kaffihúsastemning. Fóru strákarnir því saddir og sælir upp í rúm, sáttir eftir annasaman dag. Setjum nú ósk um ögn betra veður inn í kvöldbænina okkar, það væri frábært ef við slyppum við norðaustan strekking á morgun. Ég minni á myndasíðuna okkar en þangað mun ég bæta við myndum á morgun.

Kveðja. Arnór, forstöðumaður.