Það voru hressir krakkar sem mættu í Vatnaskóg í gær, þetta er glæsilegur hópur og hlökkum við mikið til að eyða næstu dögum með krökkunum.
Á fyrsta degi var margt í gangi hjá okkur. Byrjað var á nokkrum skemmtilegum leikjum á kapelluflötinni, þar sem tilgangurinn var að hrista hópinn saman.
Eftir hádegismat var mikið fjör á bátunum og margir fengu sér sundsprett í vatninu, enda veðrið stórkostlegt.
Ýmis dagskrá var fram eftir degi en hápunkti dagsins var náð þegar kvöldvakan hófst. Líklega var um sögulegan viðburð að ræða, því kvöldvakan var haldin úti á vatni. Ekki er vitað til þess að það hafi verið gert áður í 90 ára sögu Vatnaskógar. Krakkarnir sátu í bátum við prammann og fylgdust með foringjunum bregða á leik og tala um guðs orð. Sérstakur varðeldur var hannaður fyrir kvöldvökuna, en hann flaut í kringum pramman á meðan herlegheitin stóðu yfir. Það ætlaði síðan allt um koll að keyra þegar fluttur var stuttur leikþáttur sem endaði með því að einn af foringjunum „datt“ út í vatnið og ákvað að synda í land.
Dagsránni var síður en svo lokið, því eftir kvöldkaffi var farið í svokallaða „Orrustu“. En þá keppast tvö lið á sérstökum velli sem inniheldur stóra hoppukastala og dýnur. Keppendur fá mjúka pappírsbolta sem virka sem skot og er markmiðið að kasta í andstæðingana.
Í morgun var vakið með ljúfum tónum áður en haldið var í morgunmat og síðan á morgunstund. Núna stendur yfir borðtennismót, kubb-keppni, spil í matsal, kvikmyndagerð, spjall og ýmislegt fleira.
Með kveðju úr Lindarrjóðri,
Ásgeir Pétursson, forstöðumaður
Myndir úr flokknum má finna á slóðinni: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157635055612579/