Dagurinn í gær markaðist af rigningunni sem varði allan daginn. Þannig var dagskráin á staðnum fyrst og fremst innanhús, þó sumir drengirnir viti vel að enginn sé verri þó hann votni. Við buðum m.a. upp á kynningu á bardagaíþróttinni hapkido, héldum körfuboltamót, buðum upp á borðtennis, heita potta, smíðaverkstæði, buðum á báta þegar vindinn lægði með kvöldinu og svo mætti lengi telja. Þá ákváðum við að bjóða drengjunum að horfa á leik Ítalíu og Úrúguay, enda margir sem litu upp til Suarez fyrir leikinn og voru spenntir að sjá hann spila.

En þeir sem horfðu á leikinn lærðu með skýrum hætti að fyrirmyndir eru aldrei algóðar (eða alslæmar) og stundum gera hetjurnar okkar mistök sem erfitt er að skilja og ómögulegt að réttlæta. Þetta rímaði svo sem ágætlega við umræður okkar um náð og fyrirgefningu í Biblíulestrinum nú í morgun, þó Suarez hafi ekki verið notaður þar sem dæmi.

Veðrið lítur betur út núna. Hópur drengja hljóp víðavangshlaup kringum Eyrarvatn (4,2 km) og nú eftir hádegi er hópur að ganga á Kambinn, fjallið sem stendur hér tignarlegt norðan við Eyrarvatn. Nokkrir kraftmiklir drengir sem kusu að ganga ekki, munu sjá um að ferja hópinn yfir vatnið á árabátum. Þessu til viðbótar er listasmiðja opin, hægt að leika í íþróttahúsinu, keppa í kúluvarpi, sigla á vatninu eða vaða í vatninu.

Framundan síðar í dag eru fjölbreytt verkefni sem enda með ævintýraleik upp undir miðnætti, sem við væntum að veki mikla lukku.

Myndir síðustu 24 tímanna voru ekki margar og matarborðsmyndirnar voru teknar eldsnemma í morgun, sem útskýrir af hverju sumir drengjanna virka e.t.v. fremur daufir.