Nú er lítið eftir af flokknum hér í Vatnaskógi. Fjölbreytt dagskrá er í boði núna fyrir hádegi. Íþróttir, bátar, smíðaverkstæði, feluleikur í skóginum og margt fleira.

Drengirnir koma í hádegismat kl. 12:30, knattspyrnuleikur foringja og drengja hefst kl. 13:15 og svo höldum við í Skógarmannaguðsþjónustu í sal Gamla skála kl. 14:15. Eftir kaffitíma sem hefst rétt rúmlega þrjú, verður síðan farið í rútur og áætluð heimkoma í Reykjavík verður kl. 17:00.

Dvölin hefur gengið vel, drengirnir eru vonandi allir sáttir og glaðir. Þó trúum við því að það sé alltaf hægt að gera aðeins betur. Um leið og ég þakka traustið sem foreldrar hafa sýnt okkur, þá megið þið endilega taka þátt í að gera gott starf betra með því að láta mig vita ef drengirnir segja ykkur frá einhverju sem má bæta í Vatnaskógi eða ef eitthvað tókst óvenju vel. Annað hvort með að hringja í okkur í Vatnaskógi eða senda mér tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.

Það er við hæfi að enda síðasta póst þessa flokks á ljóði eftir einn af drengjunum sem voru hér í vikunni.

Vatnaskógur

Hér vinnum við verk
og vinir erum.
Við getum allt gert
og saman það gerum.

En leiðinlegt er þegar lúður
bindur enda á leikinn hátt og snjallt.
Og þá er í matinn sætur snúður,
þó safinn fari út um allt.

Frá bryggjunni við bátunum siglum,
og róum yfir bárur, laglega.
En í vöðvunum ekki við myglum,
því hreyfing er í boði daglega.

Á kvöldin fáum við stund með Guði
og kapellan er alltaf opin.
Í kvöldkaffi við sleppum öllu suði
og hressir okkur mjólkursopinn.

Takk fyrir þessa góðu daga.
Takk fyrir þessa stund.
Á kvöldin var rosa góð saga,
og gaman að skreppa í sund.

Gylfi Örvarsson, 3. borði