Í gærkvöldi fundum við að drengirnir voru orðnir mjög þreyttir eftir tveggja daga öfluga dagskrá og í morgun var óvenjurólegt í morgunmatnum enda drengirnir hálf eftir sig eftir fyrstu tvo dagana. Við munum því taka það rólega fyrri hluta dagsins, þó vissulega verði boðið upp á dagskrá í íþróttahúsinu, bátarnir og smíðaverkstæðið séu opin og kassabílarallý og knattspyrna séu í boði.

Eftir kaffi í dag stefnum við svo að því að bjóða upp á hinn geysivinsæla hermannaleik og óhætt að lofa miklu fjöri þar.

Drengirnir sem eru hér í fyrsta sinn urðu hluti af Skógarmönnum KFUM í morgun, búnir að dvelja í dvalarflokki í Vatnaskógi í tvær nætur. Myndir af dvölinni hingað til er á myndasíðu Vatnaskógar.

Fyrstu tvær næturnar eru yngstu drengjunum oft erfiðar og örfáir drengir hafa fengið heimþrá af því stigi að við höfum haft samráð við foreldra. Enginn hefur samt farið heim ennþá, enda vita strákarnir flestir hversu mikilvægt það er að ná að takast á við þessar tilfinningarnar, viðurkenna þær, en láta þær ekki stjórna lífi sínu.

Fræðsluinnlegg dagsins
Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki haft áhrif nema á mjög lítinn hluta drengjanna í flokknum er kannski við hæfi að skrifa örfá orð um hvernig þessi tilfinning lýsir sér. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg og viðbrögð drengjanna oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þeir hafa tilhneigingu til að koma með ásakanir, loka sig af, reiðast og nota samningatækni til að takast á við vanlíðan. Oft fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) þó stundum birtist líkamlega vanlíðanin í hausverk eða stirðleika í liðum.

Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, sem eru fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar, sem þeir skiljanlega vita ekki hvernig er rétt að taka á.

Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra, þegar tilfinningarnar hefta á einhvern hátt tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að hjálpa barninu að njóta sín.

Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi er því sú að hjálpa barninu til að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðaninni að tækifærunum.

Við trúum því að þessi reynsla, að láta ekki undan vanlíðuninni, þó við viðurkennum hana og göngumst við henni, sé mikilvæg reynsla fyrir drengina í starfinu og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi.

Halldór Elías Guðmundsson (elli@vatnaskogur.net)
forstöðumaður