Nú styttist 5. flokkur verulega í annan endann. Framundan er morgunmatur, morgunstund, orusta í íþróttahúsinu, hádegismatur, pökkun, lokastund og lokakaffitími með ís og kleinuhring. Heilt yfir hefur allt gengið vel og drengirnir voru í miklu stuði í gær á hátíðarkvöldvökunni sem stóð í nær þrjár klukkustundir með spurningakeppni, verðlaunaafhendingu, leikritum, sjónvarpi Lindarrjóður, tónlistaratriðum, framhaldssögu og hugleiðingu um mikilvægi þess að deila kærleika með öðrum.
Drengirnir fara í rútuna um kl. 16:00 og áætluð heimkoma við KFUM og KFUK húsið við Holtaveg í Reykjavík er kl. 17:00. Þeir foreldrar sem hyggjast sækja börnin sín í Vatnaskóg þurfa að vera mætt hingað ekki mikið síðar en 15:45.
Við sem hér störfum viljum þakka foreldrum og forráðamönnum fyrir það mikla traust sem þið hafið sýnt okkur með því að senda drengina hingað og við höfum gert okkar allra besta til að vera traustsins verð.
Við í Vatnaskógi erum stöðugt að reyna að gera gott starf enn betra. Þess vegna viljum við endilega fá að vita um það sem drengjunum fannst ganga vel og eins það sem kannski var síðra. Ef drengirnir nefna eitthvað sérstakt eftir að þeir koma heim sem gæti hjálpað okkur til að gera ennþá betur, má endilega senda mér tölvupóst á elli@vatnaskogur.net eða hringja á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg.