Hluti drengjanna valdi að fara í gönguferð upp í skóginn í gær, yfir klettabelti hér austan við okkur og síðan kringum vatnið þar sem þurfti að vaða ósana við sinn hvorn endann. Á meðan fóru aðrir drengir á báta, nú eða í íþróttahúsið. Einhverjir spiluðu fótbolta, fóru út í skóg á eigin forsendum, spiluðu stangatennis eða dunduðu sér við veiðar.

Hér í Vatnaskógi gengur allt með hefðbundnum hætti, við erum með morgunmat að öðru jöfnu kl. 9, hádegismat kl. 12, kaffitíma kl. 15, kvöldmat kl. 18 og kvöldkaffi kl. 20:30. Eða eins og einn drengurinn orðaði það um miðjan dag í gær. „Við erum alltaf að borða“. Að loknu kvöldkaffi er síðan kvöldvaka kl 21 og síðan fara drengirnir í ró. Flestir drengirnir voru sofnaðir fyrir kl. 23 í gærkvöldi, eftir viðburðaríkan dag.

Við munum ekki slá slöku við í dagskránni í dag, eftir hádegi er stefnt að hermanna- eða klemmuleik sem hefur verið leikinn hér í skóginum í því sem næst hverjum flokki í marga áratugi. Við verðum með keppnisgreinar í frjálsum íþróttum, bjóðum upp á báta og fótbolta, íþróttahúsið og margt fleira.

Myndir koma inn öðru hvoru yfir daginn, ef ljósmyndarinn okkar er ekki upptekinn í öðrum verkefnum.

Fræðsluinnlegg dagsins

Starfsfólk í sumarbúðum KFUM og KFUK í Vatnaskógi kemur úr ýmsum áttum og stendur saman af einstaklingum með áratugareynslu í sumarbúðastarfi í bland við ungt og efnilegt fólk sem flest kemur úr starfi KFUM og KFUK á Íslandi. KFUM og KFUK aflar sér upplýsinga um allt starfsfólk frá Sakaskrá ríkisins.

Allt starfsfólkið fer í gegnum ítarleg námskeið á vegum KFUM og KFUK um hlutverk sitt auk þess sem það situr námskeið á vegum Æskulýðsvettvangsins (samstarfsvettvangs Skáta, KFUM og KFUK, UMFÍ og Landsbjargar) um eineltisviðbrögð annars vegar og hins vegar námskeiðið Verndum þau um barnavernd og ofbeldi gegn börnum.

Forstöðumaður í 7. flokki er Halldór Elías Guðmundsson djákni.