Við biðjumst velvirðingar á fréttaseinkunninni í dag, en Vatnaskógur missti netsamband í nótt vegna rafmagnsleysis á netsendum í sveitinni.
Dagurinn í gær var um margt hefðbundinn sumarbúðadagur. Dagskráin samanstóð af frjálsum íþróttum og frjálsum leik, bátum og boltaleikjum auk þess sem við buðum upp á hinn gífurlega vinsæla hermannaleik (klemmuleikurinn). Matartímar voru með hefðbundnum hætti og á kvöldvökunni sagði Guðlaug María Sveinbjörnsdóttir starfsmaður Biblíusöguna um synina tvo. Þá hélt framhaldssagan um 12 ára drenginn Najac áfram og þeim var stuttlega sagt frá starfi íslenska kristniboðssambandsins í Eþíópíu og Kenýa.
Í morgun hófst fjárssjóðsleit í Vatnaskógi auk þess sem drengirnir tóku þátt í svokallaðri Skógarmannaguðsþjónustu, en í henni er fylgt hefðbundnu guðsþjónustuformi þjóðkirkjunnar og einstakir liðir þess kynntir og útskýrðir.
Framundan í dag er spjótkast, fjársjóðsleit heldur áfram, Bátarnir eru opnir, poolmót er að byrja, skákmót verður síðar í dag og svo mætti lengi telja.
Netið er enn að stríða okkur og því miður gæti orðið veruleg seinkun á nýjum myndum úr flokknum, en við vonumst til að það lagist í síðasta lagi í kvöld.
Fræðsluinnlegg dagsins
Starf KFUM og KFUK á Íslandi hófst 1899 og alla tíð síðan hefur verið lögð áhersla á vandað kristilegt starf fyrir börn og unglinga. Upp úr 1920 kynnti stofnandi félagsins, Friðrik Friðriksson, hugmyndir um sumarbúðastarf en hann hafði kynnst sumarbúðum KFUM í Danmörku.
Þátttakendur í starfinu gripu hugmyndina á lofti og þegar einn félaginn, Hróbjartur Árnason, var á ferð um Svínadal 1922 kom hann auga á það svæðið sem heitir nú Vatnaskógur við Eyrarvatn. Strax ári síðar fór fyrsti drengjaflokkurinn á vegum KFUM í Vatnaskóg og þar hefur verið starf alla tíð síðan eða í 91 ár. Síðar hófu félagar í KFUM og KFUK sumarbúðastarf víðar, m.a. í Kaldárseli utan við Hafnarfjörð, í Vindáshlíð í Kjós, í Ölveri undir Hafnarfjalli og á Hólavatni innst í Eyjafirði. Öll uppbygging sumarbúðanna byggir á ómældri vinnu sjálfboðaliða á öllum aldri yfir 90 ár og fjárframlögum frá velunnurum starfsins.
Starfsemin í Vatnaskógi hefur breyst mikið undanfarin 20 ár, en fram til 1992 var sumarbúðastarfið eina meginstoðin í starfi Vatnaskógar. Síðan þá hefur starfið í Vatnaskógi aukist jafnt og þétt og þar er nú starfsemi allt árið um kring. Á haustin mæta í Vatnaskóg þúsundir fermingarbarna og á vorin heimsækja leikskólabörn svæðið.