Í gær var drengjunum boðið að taka þátt í fjársjóðsleit í skóginum. Þegar þetta er skrifað eru drengirnir í hermannaleik fyrir morgunmat og framundan er fjölbreytt dagskrá í dag m.a. miðnæturævintýraleikur. Þessi 8. flokkur sumarsins hefur gengið mjög vel þrátt fyrir að guli hringurinn á himninum hafi ekki látið sjá sig, þoka liggi yfir Svínadal og rigningin hafi ráðið ríkjum á staðnum þessa fyrstu daga. Jákvæðu þættir veðursins eru enda mikilvægari en þeir neikvæðu. Það hefur verið blankalogn á svæðinu og það hefur verið tiltölulega hlýtt. Drengirnir eru byrjaðir að sýna þreytumerki eftir tvo sólarhringa og það er ekki ósennilegt að við leyfum þeim að sofa örlítið lengur í fyrramálið, enda verður dagskráin í dag um 16 klst.
Það má sjá nýjar myndir m.a. af fjársjóðsleit og kvöldvökunni í gærkvöldi á myndasíðu Vatnaskógar.
Innlegg dagsins
Skógarmenn KFUM er félag innan KFUM og KFUK á Íslandi sem sér um starfið í Vatnaskógi. En allir þeir sem dvalið hafa í a.m.k. tvær nætur í hefðbundnum dvalarflokki í sumarbúðunum teljast til Skógarmanna. Ár hvert blása Skógarmenn til vímu- og áfengislausrar fjölskylduhátíðar um Verslunarmannahelgina sem kallast Sæludagar þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Hægt er að nálgast upplýsingar um hátíðina á slóðinni http://www.kfum.is/2014/07/15/saeludagar-i-vatnaskogi-2014/.