Því miður verður enginn starfsmaður við símann meðan á símatíma stendur í dag, föstudag, vegna dagskrár með drengjunum. Það verður hægt að ná sambandi ef eitthvað er, milli kl. 16:30-17:30.

Dagurinn í gær var fjölbreyttur að vanda og boðið upp á margvíslega dagskrá yfir daginn, jafnt inni og úti. Unglingaflokkurinn í Ölveri mætti á svæðið um kl. 13:30 og þó flestir drengirnir létu sér fátt um finnast, voru aðrir sem buðu fram aðstoð sína við að sýna stúlkunum svæðið og/eða fylgdust vel með gestunum.

Dagurinn í dag verður með hefðbundnu veisludagssniði. Í kjölfar morgunstundar munu drengir og foringjar etja kappi í knattspyrnu, helstu keppnum flokksins lýkur í dag og í kvöld verður blásið til hátíðarkvöldverðar og hátíðarkvöldvöku sem án nokkurs vafa mun verða drengjunum minnisstæð.

Það sá til sólar í réttar 10 mínútur í gær, milli 13:40-13:50, en annars hefur veðrið verið mjög svipað allan flokkinn, alskýjað, logn og hlýtt og ýmist rigning eða við það að bresta í rigningu. Þetta hefur svo sem ekki mikil áhrif á drengina, en við gátum ekki boðið upp á útilegu og eins hafa föt drengjanna blotnað mikið. Við reynum að fá þá til að sinna um fötin og hengja þau í þar til gerða þurrkklefa og vonandi koma flest föt sæmilega þurr úr töskunum þegar þeir koma heim.

Við höfum bætt við nokkrum myndum frá heimsókn Ölversstúlkna í Vatnaskóg, en því miður var myndavélin ekki mikið á lofti í gær.