Unglingaflokkur í Vatnaskógi hefur farið vel af stað þetta árið. Dagskráin fyrsta sólarhringinn var lágstemmd og fremur hefðbundinn, bátar, knattspyrna, frjálsar íþróttir, spilakvöld, útileikir, samhristingur, kvöldvaka, morgunstund í Skógarkirkju og vatnafjör. En núna eftir hádegismat er ætlunin að bæta í og bjóða upp á meira krefjandi dagskrá sem mun standa meira eða minna fram undir miðnætti. 

Veðrið er frábært í augnablikinu, þurrt, logn og glampandi sól og nærri 20 stiga hiti hérna við matskálann, án vafa besta veðrið í Vatnaskógi þær vikur sem ég hef verið hér í sumar. Það eru þó ekki aðeins mannfólkið sem hefur fagnað veðrinu, mýið á staðnum flýgur um fagnandi og gæðir sér af bestu lyst bæði á unglingum og starfsfólki.

Starfsfólkið í flokknum mun ekki leggja miklar áherslu á að mynda það sem fram fer þessa vikuna, þannig að væntanlega verða færri myndir á vefnum en frá hefðbundnum flokkum sumarsins.