Það er óhætt að segja að við höfum gengið of langt í Vatnaskógi eftir hádegi í gær. Enda eru unglingarnir útkeyrðir og uppgefnir í augnablikinu þrátt fyrir góðan nætursvefn. Hluti hópsins hljóp 4,2 km víðavangshlaup í gærmorgun. Allflest fóru því sem næst af stað í góða rúmlega tveggja tíma gönguferð í hyl upp undir fjallinu Kambi sem stendur norðan við Eyrarvatn í Svínadal. Á bakaleiðinni hittu þau unglingana sem höfðu ákveðið að sleppa ferðinni í hylinni og hópurinn allur hélt til austurs þar sem þau gengu upp að Kúavallafossum sem reyndist nærri 2,5 klst fjallganga.
Þar tóku á móti þeim félagar í Björgunarfélagi Akranes sem buðu þeim að síga með fossinum í sigbúnaði, niður nærri 50 metra þverhnípt bjarg. Þegar þarna var komið sögu var komið nálægt kvöldmat og unglingunum var boðið upp á grillaða hamborgara upp á fjallinu áður en þau gengu af stað í átt að sundlauginni að Hlöðum, þar sem þau sem vildu skelltu sér í sund og heita potta.
Síðustu unglingarnir komu upp í Vatnaskógi rúmlega kl. 22, eftir 11 tíma ævintýraferð, þreytt og sátt (eða verða vonandi sátt áður en flokknum lýkur 🙂 ).
Kvöldvakan var haldin í Café Lindarrjóðri meðan þau drukku heitt kakó, borðuðu ávexti og kökur. Unglingarnir voru flestir sofnaðir nokkrar mínútur eftir miðnætti en áttu samt sum verulega erfitt með að mæta í morgunmatinn kl. 10.
Framundan er rólegri dagur en í gær. Frjálsar íþróttir, blak, bandý, knattspyrna, billiard, bátar, spil og spjall munu einkenna dagskrána fram á kvöld.
Þrátt fyrir að myndir úr flokknum verði færri á netinu en í hefðbundnum flokkum, þá vonumst við eftir að geta birt nokkrar myndir síðar í dag.