Eftir dagskrá miðvikudagsins töluðu margir þátttakendur um mikilvægi þess að taka það rólega í gær, fimmtudag, sem við og gerðum. Verkefni gærdagsins voru þannig í rólegri kantinum, bátunum var lokað vegna veðurs, en þess í stað buðum við upp á frjálsar íþróttir, knattspyrnu, borðtennisleikinn Kong, blak, dýraleikinn, mafíu, spilastund, smíðastofu og  myndlistarhóp svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir frábæra kvöldvöku og ágætis kvöldkaffi, var síðan boðið upp á flóttann úr Vatnaskógi, sem er ævintýraratleikur með spennuívafi og stóð leikurinn rétt fram yfir miðnætti. Unglingarnir fóru í rúm rétt fyrir kl. 01:00 og sofnuðu fljótt og vel.

Ég hef starfað með reglubundnu millibili í Vatnaskógi frá árinu 1991 og var aðstoðarforingi í unglingaflokki það ár. Það er tvennt sem hefur gripið athygli mína að þessu sinni. Fyrir það fyrsta eru unglingarnir í ár einstaklega þægilegir í framkomu og samskiptum við hvert annað og við starfsfólkið. Það hefur nefnilega ekki alltaf verið svoleiðis.

Hitt sem ég tek líka eftir er að með hverju árinu fækkar þeim unglingum sem þekkja grundvallarhugtök og texta kristninnar. Þetta er sér í lagi merkilegt þar sem flestir unglingarnir hafa farið í gegnum fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar. Ég ræddi þetta við hóp unglinga í gær, þegar í ljós kom að nokkur þeirra kunnu ekki Faðir vor-ið og töluðu um að þau kynnu vart að biðja.

Einn drengurinn benti mér á að ástæðan væri einföld, foreldrar hans vildu að hann tæki sína eigin trúarlegu afstöðu, hann veldi sjálfur hvaða trúarskoðanir hann aðhylltist. Af þeim ástæðum væri engu haldið að honum. Ákvörðunin væri hans. Þetta er um sumt gild hugmynd, en hefur þó þann vankant að það getur verið mjög erfitt að velja eitthvað sem við höfum enga vitneskju um, forsendur til að tileinka okkur eða taka afstöðu til.

Trúarlega umræðan á morgunstundum og í hugleiðingum á kvöldvökum leitast við að taka tillit til þessara breyttu aðstæðna, þar sem þátttakendur fá tækifæri til að skoða biblíulega texta og ræða innihald þeirra, auk þess sem starfsfólk útskýrir hvernig það sjálft skilur hver Guð er.

Þannig var áhugavert að heyra í morgun hvernig unglingarnir samsömuðu sig mörg eldri syninum í sögunni um synina tvo í 15. kafla Lúkasarguðspjalls og orðuðu sum mjög vel hvernig hugmyndir um nýtt upphaf og fyrirgefningu, hugmyndir sem eru grundvallandi í kristinni trú, geta hljómað ósanngjarnar og óréttlátar í augum þeirra sem eru góð og hafa allt.