Seint í gær héldu 9 ofurhugar ásamt starfsmönnum í útilegu í fjalllendinu austast í Svínadal og þegar þetta er ritað hefur hópurinn ekki skilað sér aftur í hús. Dagskrá annarra þátttakenda var rólegri en tók samt á, enda horfðum við saman á kvikmyndina Vesalingana (Les Miserables) í stað hefðbundinnar kvöldvöku. Að myndinni lokinni var síðan kvöldkaffi, stutt kvöldsamvera og boðið upp á kapellustund fyrir þá sem það vildu áður en hópurinn sem varð eftir í Vatnaskógi fór að sofa rétt eftir kl. 1:00.

Í dag er síðan boðið upp á útsof til kl. 11:00, en kl. 11:30 verður sameiginleg morgunsamvera þar sem ég kem til með að vera með stutt innlegg fyrir þátttakendur um það á hvaða hátt Jean Valjean og Javert endurspegla  hugtökin lögmál og fagnaðarerindi og hvernig hægt er að sjá synina tvo í sögunni um Týnda soninn í 15. kafla Lúkasarguðspjalls endurspeglast í skrifum Victors Hugo.

Jean Valjean verður viðfang elskunnar sem kallar hann til nýs lífs, nýs upphafs, lífs fyrirgefningar, miskunnsemi og náðar. Meðan Javert, sá sem gerir alltaf allt rétt, lifir fastur í lögmálinu, sem gerir honum ómögulegt að þiggja náð og fyrirgefningu.

Annars er framundan veisludagur hér í Vatnaskógi. Dagskrá hefst um hádegi þegar hópurinn kemur af fjöllum. Boðið verður upp á knattspyrnuleik starfsfólks og þátttakenda, forkeppni Biblíuspurningakeppninnar verður haldin, lokagrein frjálsíþróttamótsins, það verður dagskrá í íþróttahúsinu en því miður verða bátarnir lokaðir enn einn daginn, enda hörkunorðaustan átt hér í Vatnaskógi.

Í kvöld hefst síðan veislukvöldverður kl. 19:00 og í kjölfarið verður hátíðarkvöldvaka fram eftir kvöldi. Að veislukvöldi loknu, verður síðan kvöldkaffi og kvöldpartý með dansgólfi og margs konar fjöri.