Nokkrir af unglingunum í flokknum umbreyttu rými í óinnréttuðum hluta Birkiskála í dansgólf, fundu til tæki og tól til tónlistarflutnings og dönsuðu inn í nóttina í gær undir taktföstum takti frá dj sem kom úr hópi unglinganna.
Áður en kom að dansinum hafði verið fjölbreytt dagskrá. Unglingarnir töpuðu fyrir starfsfólki í knattspyrnu eins og hefð er fyrir. Boðið var upp á kubb, smíðaverkstæðið var opið hluta af deginum, fólk tók í spil, var í íþróttahúsinu, keppt var í brekkuhlaupi og aðrar keppnir kláruðust þegar leið á daginn.
Tvær stærstu keppnir ársins í Vatnaskógi eru annars vegar frjálsíþróttamót unglingaflokks og hins vegar Biblíuspurningakeppnin. Um er að ræða einstaklingskeppnir þar sem sigurvegarar fá bikar til varðveislu í eitt ár, fram að næsta unglingaflokki. Að þessu sinni bar Gestur Daníelsson sigur úr býtum í frjálsíþróttakeppninni, en Dagur Adam Ólafsson sigraði Biblíubikarinn annað árið í röð.
Að lokum vil ég fá að segja að unglingaflokkurinn í ár hefur verið einstaklega ánægjulegur og þátttakendur hafa verið foreldrum sínum og fjölskyldu til sóma með öllu atferli sínu.
Hópurinn leggur af stað með rútu áleiðis til Reykjavíkur um kl. 15:50 í dag og er áætluð heimkoma um kl. 17:00 við KFUM og KFUK húsið við Holtaveg.
Við í Vatnaskógi erum stöðugt að reyna að gera gott starf enn betra. Þess vegna viljum við endilega fá að vita um það sem unglingunum fannst ganga vel og eins það sem kannski var síðra. Ef unglingarnir nefna eitthvað sérstakt eftir að þeir koma heim sem gæti hjálpað okkur til að gera ennþá betur, má endilega senda mér tölvupóst á elli@vatnaskogur.net eða hringja á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg.
Með kærri þökk fyrir traustið,
Halldór Elías Guðmundsson (upplýsingar um Halldór)