Það var frábært að fá drengina inn í matskálann eftir fyrstu tvær klukkustundirnar á töframannanámskeiði Jóns Víðis í gær. Sumir þeirra komu hlaupandi til að sýna mér töfrabrögð þar sem þeir ýttu 10 króna peningi inn í höfuðið á bakvið eyrað og hóstuðu honum síðan upp. Aðrir festu teygjur á fingurna á sér og létu þær færast í gegnum fingurna. Einhverjir lærðu að rífa smágat á blað og ýta í gegnum gatið hvers kyns dóti, skálum, bókum og raftækjum.

Eftir kaffitímann var síðan boðið upp á frjálst framhaldsnámskeið sem hluti drengjanna sóttu, meðan aðrir kynntu sér skóginn eða léku sér í íþróttahúsinu.

Eftir kvöldmat fór hópurinn svo í gönguferð í skóginum, þar sem þeir fengu góða leiðsögn um Vatnaskóg og svæðið frá Salvari Guðgeirssyni. En hann hefur verið starfsmaður í Vatnaskógi með hléum í tvo áratugi og hefur mikla þekkingu á umhverfinu í Svínadal.

Jón Víðis bauð síðan upp á frábæra töfrasýningu á kvöldvökunni, þar sem hann galdraði m.a. fram kanínur af ýmsum stærðum og gerðum.

Framundan í dag er spennandi dagur. Jón Víðis verður með töfrabragðakennslu fyrir hádegi. Smíðaverkstæði og íþróttahúsið verða opin, það verður boðið upp á langhlaup, knattspyrnu og svokallaðan hermannaleik fram eftir degi en kl. 18:30 tekur við veislukvöld, þar sem boðið verður upp á dýrindis lambakjöt með fjölbreyttu meðlæti. Að því loknu tekur síðan við hátíðarkvöldvaka sem stendur fram eftir kvöldi með vandaðri dagskrá og leikritum.

Myndir frá flokknum má sjá á myndasíðu Vatnaskógar.