Þegar við vöknuðum í morgun var búið að slétta vatnið, þannig að hægt var að spegla sig í því. Þetta er kærkomin breyting eftir þriggja daga norðaustan rok, þó að vatnið gárist örlítið núna eftir morgunmatinn.
Dagskrá flokksins verður því að mestu leiti á, í og við vatnið núna fram undir hádegi. Það merkir jafnframt að drengirnir munu margir hverjir koma með blaut föt í pokum í ferðatöskunum sínum heim með rútunni í dag.
Eftir hádegi tekur við að pakka í töskur, boðið verður upp á leikinn orustu í íþróttahúsinu og kl. 14:30 verður Skógarmannaguðsþjónusta og síðan kaffitími, áður en drengirnir halda heim með rútunni. Áætluð heimkoma þessa síðasta flokks sumarsins er kl. 17:00 við KFUM og KFUK húsið við Holtaveg.
Við í Vatnaskógi erum stöðugt að reyna að gera gott starf enn betra. Þess vegna viljum við endilega fá að vita um það sem drengjunum fannst ganga vel og eins það sem kannski var síðra. Ef drengirnir nefna eitthvað sérstakt eftir að þeir koma heim sem gæti hjálpað okkur til að gera ennþá betur, má endilega senda mér tölvupóst á elli@vatnaskogur.net eða hringja á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg.