Allt gengur mjög vel. Í gærkvöldi var drengjunum komið á óvart eftir kvöldkaffi með dagskrártilboðum í stað háttatíma. Boðið var uppá róðrakeppni, hungergames (eltingarleikur), skógarferð með varðeld og grilluðu brauði og opnu íþróttahúsi. Tóku þeir þessu ævintýraflokkstilboði afar vel og voru í miklu stuði. Að þessu loknu lögðust þeir þreyttir á koddann sinn og svifu á vit draumanna. Fyrir vikið fengu þeir að sofa aðeins lengur í morgun, eða til kl. 09.00. Veðrið leikur við okkur, hlýtt, stillt og fallegt veður. Þeir eru virkir í fótboltanum, íþróttunum, á bátum, í listasmiðju, í gönguferð. Nokkrir drengir fóru í hörkugönguferð í gær meðfram allri girðingunni og síðan kringum vatnið þar sem þeir óðu yfir báða ósana.
Dagurinn í dag lofar góðu. Við munum njóta hans.