Sólin skein milli skýja hér í Vatnaskógi og vind lægði í morgun. En nú kl. 16:22 er eitt mesta skýfall sumarsins að ganga yfir. Það er eins og hellt úr fötu. Spáð er regnskúrum fram á kvöld.
Þrátt fyrir vætu er hér nóg að gera. Nú geta strákarnir t.d. valið milli dagskrártilboða sem eru innandyra: körfubolti í íþróttasal, billiard, þythokkí, andrésblöð, listahorn, stuttmyndagerð og smíðar o.fl. Þeir sem vilja vera úti geta skemmt sér á bátum eða slakað á í pottunum. Eftir kvöldmat ætlum við að freista þess að vera með ævintýralegan ratleik sem fer fram bæði úti og inni. Við munum gæta þess að drengirnir klæði sig eftir veðri.
Gærdagurinn fór að öllu leyti vel fram og sem fyrr fóru drengirnir glaðir en þreyttir í rúmin.
Eins og sum ykkar hafa eflaust orðið vör við þá herjar lúsmý (ný tegund mýflugna) á íbúa Hvalfjarðarsveitar og Kjósar eins fréttamiðlar hafa greint frá. Við höfum tekið eftir þessum flugum og bitum sem þeim fylgja. Viðbragðsáætlun hefur verið sett í gang og kemur meindýraeyðir hingað í fyrramálið til þess að fyrirbyggja það að flugur fari inn í húsin. Einnig var farin ferð í apótekið og versluð krem og kláðastillandi smyrsl fyrir þá drengi (og starfsmenn) sem hafa orðið fyrir flugunni. Strax hafa þessi smyrsl (sérstaklega Pensým) sannað virkni sína. Nokkur fjöldi drengja hefur fengið 1-2 bit en örfáir hafa orðið verr úti. Foreldrar þeirra sem flest bit hafa munu fá fréttir og geta treyst því að drengir þeirra verði vel meðhöndlaðir.
Nýjar myndir koma með reglulegu millibili inn á myndasíðu KFUM & K
Vinsamlegast staðfestið komu ykkar ef þið hafið hug á að mæta í dagskrá fyrir foreldra og drengi á sunnudag kl. 13. Dagskrá og skráningarform er að finna hér.
Kær kveðja,
Ólafur Jón forstöðumaður
(Stytt hefur upp 16:48)