Sjötti dagur heilsaði með veðurblíðu og er hér heitt, smá gola en þó engin sól. Í morgun opnaði listasmiðjan og Stjörnulið keppti við Draumalið. Jafnframt var Brekkuhlaupið sett af stað. Hlaupið er upp að hliði og til baka. Vegalengdin er 2 km. Nú eru allir drengir í ævintýraför í kringum Eyrarvatn og bíður þeim glaðningur við enda vatnsins, íspinni á mann. Vaða þarf tvær ár og eru þeir undir það búnir. Þeir sem ekki vilja vaða verða ferjaðir á árabátum yfir ósana. Eftir kaffi verður boðið upp á Orrustu: fjörugan skotboltaleik í tveimur liðum. Pottar verða opnir og fleira í boði.

Dagurinn í dag dregur nafn sitt af hátíðarkvöldverði og sérstakri kvöldvöku sem haldin verður á eftir. Á matseðlinum er Bayonne-skinka ásamt öllu mögulegu meðlæti.

Gærdagurinn leið hratt enda nóg um að vera. Þreytan er farin að segja til sín á kvöldin og stefnum við að fara örlítið fyrr í háttinn í kvöld. Drengirnir sofnuðu með bros á vör.

Mýbitum fjölgaði í gær og þeim fjölgar að öllum líkindum fram á sunnudag. Við höfum ákveðið að hafa einungis samband við foreldra þeirra drengja sem líður illa vegna bitanna, eða gætu þurft á ofnæmislyfjum að halda. Misjafnt er hvernig þeir þola kláðan en með okkar aðstoð komast drengirnir í gegnum daginn og nóttina. Látið ykkur ekki bregða þó þið finnið bit á drengjum ykkar við heimkomu. Enginn hefur farið heim vegna bita/kláða og það gengur vel að bera á bitin.

Margir hafa skráð sig í sunnudagsheimsókn frá kl. 13-16. Enn er hægt að skrá sig hér! Vinsamlegast gerið það. Við biðjum ykkur um að leggja bílum ykkar á sérstakt gestabílastæði svo þeir þrengi ekki að rútunni þegar hún kemur kl. 15. Bílastæðið er merkt með rauðum hring og leiðin þangað frá hliði með rauðri línu á meðfylgjandi mynd. Einnig má sjá gönuleið (blá) að Gamla skála þar sem mótakan kl. 13 fer fram.

Loftmynd

Fleiri myndir eru komnar inn frá því í gær.

Kær kveðja,
Ólafur Jón forstöðumaður.