Dagurinn í dag hófst með morgunmat og fánahyllingu áður en haldið var á fræðslustund og biblíulestur eins og venja er hér í Vatnaskógi. Á fræðslustund dagsins var fjallað um sköpun Guðs og drengirnir minntir á að hver og einn okkar er óendanlega mikilvægur. Síðan fór hver foringi með sínu borði til að fletta upp nokkrum versum í Nýja testamenntinu sem fjalla um sama efni.
Að loknum biblíulestri tók við Amazing Race en það er leikur þar sem drengirnir fara milli stöðva og leysa skemmtilegar en erfiðar þrautir.
Vind hefur lægt í dag svo hægt var að bjóða upp á báta. Smíðastofan er einnig vinsæl auk íþróttahússins þar sem hægt er að fara í ýmsa boltaleiki ásamt t.d. borðtennis, pool og fótboltaspili. Einnig er hægt að setjast niður með bók og slaka á. Knattspyrnan er einnig vinsæl og er Svínadalsdeildin í fullum gangi. Útileikir af ýmsum toga hafa verið vinsælir og skógurinn hefur verið vel nýttur.
Mjög góð þátttaka er í frjálsum íþróttum og hafa margir gaman af því að prófa hinar ýmsu greinar. Í boði hefur verið að taka þátt í kúluvarpi, langstökki án atrennu, 60 metra spretthlaupi og 400 metra hlaupi. Yfir 60 drengir vörpuðu kúlu og 44 mættu í Víðavangshlaup en þá er hlaupið kringum Eyrarvatn u.þ.b. 4,2 km.
Veður er gott og lítið er um mý. Nýjar myndir komu inn á síðuna í dag og von á fleirum fljótlega, sjá hér.
Minnum einnig á facebooksíðu Vatnaskógar.
Kær kveðja,
f.h. forstöðumanna
Hilmar Einarsson