Hér er lágskýjað og blautt eftir rigningu næturinnar. Von er á skúrum í dag en þeir munu ekki setja strik í reikninginn því hér er hlýtt og lítill vindur. Nú fyrir hádegi er úrslitaleikur í úrsláttarkeppni í fótbolta en Svínadalsdeildin kláraðist í gær. Brekkuhlaup verður ræst hvað úr hverju og munu einhverjir garpar hlaupa upp brekkuna að hliði og niður aftur. Vegalengdin er 2 km. Íþróttahús er opið og drengjunum býðst að fara í mótorbátsferð um Eyrarvatn. Eftir hádegismat verður drengjunum skipt í tvær fylkingar Oddverja og Haukdæla og munu þær ,,berjast“ í hermannleik. Mikil eftirvænting er fyrir leiknum. Að kaffitíma loknum mun hópur foringja spila fótbolta við 22 útvalda leikmenn sem skarað hafa fram úr innan sem utan vallar. Því miður komast færri að enn vilja. Önnur dagskrá verður í boði fyrir þá sem ekki hafa áhuga á að fylgjast með leiknum.
Dagurinn í dag dregur nafn sitt af hátíðarkvöldverði og sérstakri kvöldvöku sem haldin verður á eftir. Á matseðlinum er Bayonne-skinka ásamt öllu mögulegu meðlæti.
Fleiri myndir eru komnar á myndasíðuna okkar.
F.h. forstöðumanna
Ólafur Jón Magnússon