Í gær, þriðjudaginn 4. ágúst, komu 43 unglingar til dvalar í unglingaflokki Vatnaskógar 2015.  Það er skemmst frá því að segja að hópurinn í ár er afar skemmtilegur. Hér er góð blanda af stelpum og strákum, reyndum Skógarmönnum og konum, ásamt nokkrum sem hingað hafa aldrei komið áður.  Við hófum daginn á nokkrum hópeflis leikjum á flötinni. Síðan tók við blönduð dagskrá, allt frá rabbstundum yfir í ljóðkeppni og allt þar á milli.  Margir hafa líka tekið þátt í frjálsum íþróttum sem boðið var upp á í gær.  Upp úr miðnætti var allt svo fallið í dúnalogn, enda margir þreyttir eftir daginn. Því miður var nokkuð sterkur vindstrengur sem gekk hér í gegnum Lindarrjóður – aldrei þessu vant- og höfum við því ekki enn getað boðið upp á báta eða aðra dagskrá á vatninu. Í dag, miðvikudag, hefur veðrið verið upp á ofan, enn vindur, en blanda af sól og rigningu, eins og oft vill verða.  Krakkarnir eru duglegir að taka þátt í því sem í boði er og reynum við að hafa eitthvað fyrir alla. Núna er t.a.m. hópur að taka þátt í tónlistarsmiðju sem opnaði í gær, og hyggjast þau kynna afurðina á kvöldvöku í kvöld. Aðrir eru að stökkva í hástökkskeppni, og enn aðrir eru að reyna leggja Gumma Kalla í borðtennis. Látum þetta nægja í bili, en stefnum að setja inn fréttir aftur síðar í flokknum. Myndir má sjá á myndasíðu Vatnaskógar.

Kveðja, Gunnar Þór.