Nú er vel liðið á þriðja daginn hér í unglingaflokki 2015. Veðrið er gott, gengur á með sól og vindinn hefur heldur lægt. Þetta er, sem fyrr, skemmtilega vel stilltur hópur og allir taka þátt. Í gærkvöldi var farið út í skóg og grillaðir hamborgarar yfir opnum eldi og sykurpúðar og súkkulaðikex í eftirrétt. Á kvöldvöku var meðal annars frumflutt tónlistaratriði krakkana sem varð til í tónlistarsmiðjunni hérna. Í dag hefur margt verið á boðstólnum. Sumir hafa fundið sig á smíðaverkstæði meðan aðrir hafa verið í listasmiðjunni og vinna að myndlistarverki flokksins. Blakmót var haldið sem heppnaðist vel og frjálsar íþróttir eru í gangi meira og minna eins og aðstæður leyfa. Þessa stundina er góður hópur að undirbúa útilegu sem farið verður í eftir kvöldmat – þátttaka er frjáls og framar vonum. Ekki mun væsa um aðra sem eftir verða, og m.a. búið að opna heitu pottana. Myndir frá því í dag og seinnipartinn í gær má finna á myndasíðunni.
Kær kveðja,
Gunnar Þór.