Dagurinn í gær var sannkallað ævintýri fyrir drengina. Strax eftir hádegið var haldið út í Oddakot í æsispennandi hermannaleik þar sem að Oddverjar öttu kappi við Haukdæli. Veðrið var ekki af verri endanum þannig að ákveðið var að staldra aðeins við í Costa del Oddakoti og borða kökur og aðrar kræsingar þar út frá. Þá kláraðist enn eitt fótboltamótið en nú var það Skeljungsbikarinn sem drengirnir börðust um að vinna og eftir hádramatískan úrslitaleik var það lið krossfiskanna sem náði að knýja fram eins marks sigur á loka mínútunum. Um kvöldið var haldin kvöldvaka en að þessu sinni fengu drengirnir einnig að vera með atriði og láta ljós sitt skýna á sérstakri hæfileikakeppni sem haldin var. Það kom berlega í ljós að strákunum er margt til lista lagt og eiga framtíðina fyrir sér sem skemmtikraftar. Í dag er veisludagur þar sem að þetta er síðasti heili dagurinn í flokknum og ýmislegt skemmtilegt er á dagskrá svo sem foringjaleikur, hátíðarkvöldmatur, hátíðarkvöldvaka og svo verður botninn sleginn úr góðum degi með því að henda undirrituðum út í Eyrarvatn. Því miður var ekki hægt að hlaða upp mynd með fréttinni vegna tæknilegra örðugleika en við minnum á myndasíðuna https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157668912560360/with/27717095761/

 

 

 

Með Skógarmannakveðju,

Arnar Ragnarsson