Síðustu daga hafa verið tæknileg vandamál hér í Vatnaskógi, netsambandið hefur legið niðri og því hefur ekki verið hægt að setja inn fréttir eða myndir. Við biðjumst afsökunar á því.
Síðustu dagar hafa svo sannarlega verið viðburðarríkir. Fimmtudag og föstudag var ágætis veður, skýjað en sæmilega hlýtt og hægur vindur. Bátarnir hafa því verið opnar og notið mikila vinsælda, margir drengir sem hafa farið á báta. Sama er að segja um smíðaverkstæðið í Bátaskýlinu, þar hafa margir drengir smíðað ýmsa hluti úr við úr skóginum.
Íþróttir skipa stóran sess í dagskránni hér í Vatnaskógi. Drengirnir spila knattspyrna og eins hafa margir tekið þátt í frjálsíþróttakeppni. Auk þess er íþróttahús og einnig eru ýmsir útileiki sem hafa verið í boði.
Í flokknum hafa verið ferðir á mótarbátnum og einnig hafa drengirnir verið dregnir á tuðru á vatninu. Þetta hefur verið mjög vinsælt.
Þar sem þetta er ævintýraflokkur þá höfum við haft ýmsa hluti á dagskrá sem ekki eru í venjulegum flokki. Það eru fyrst og fremst ævintýraleikir á kvöldin. Á föstudagskvöldið var farið í leik í Jóns Odd og Jóns Bjarna þar sem drengirnir áttu að reyna að strjúka úr Vatnaskógi, með því að komast á ýmsar stöðvar án þess nást að vörðunum. Sumum drengjana tókst að komast alla leið á síðustu stöð.
Núna laugardag og sunnudag hefur kólnað í veðri og tölvert hefur ringt í dag. Dagurinn var þó með óhefðbundnu sniði, haldið var á Akranes eftir morgunmat í messu í Akraneskirkju. Eftir að hafa borðað nesti var haldið á Langasand og margir sem skelltu sér aðeins í sjóinn þrátt fyrir þungbúið veður. Þá var gott að hita sig svo í sturtunum við Langasand áður en menn klæddu sig í þurr föt. Við komum tilbaka í Vatnaskóg í kaffitímann. Þá eftir var spilaður knattspyrnuleikur þar sem úrvalslið drengja uttu kappi við lið foringja.
Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður og veislukvöldvaka. Það voru þreyttir en ánægðir drengir sem fóru að sofa.
Á morgun (mánudag) er heimferðardagur. Dagskránni lýkur með kaffitíma kl. 15 og um kl. 16. leggja rúturnar af stað til Reykjavíkur. Þeir sem ekki fara með rútu skulu vera sóttir ekki seinna en kl. 16.
Við þökkum fyrir ánægjulega og góða samveru með drengjunum. Myndir frá flokknum koma inn í fyrramálið.
Kveðja úr Vatnaskógi.
Þráinn Haraldsson, forstöðumaður.