Fyrsti dagurinn í fjórða flokki í Vatnaskógi gekk vonum framar og það eina sem skyggði á gleðina var að bátarnir voru lokaðir allan daginn vegna stöðugrar norðaustanáttar. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, hópur drengja tók þátt í hungurleikum og knattspyrnumóti, hlupu 60 metra hlaup í frjálsíþróttamótinu og/eða kepptu í kúluvarpi. Smíðaverkstæðið okkar var vinsælt allan daginn og þess utan var boðið upp á borðtennis, stutta gönguferð um svæðið og hoppukastala svo fátt eitt sé nefnt. Myndir frá 4. flokki í Vatnaskógi birtast á vefslóðinni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157669774466071.

Fyrsta kvöldvakan gekk vel, drengirnir heyrðu fyrsta hluta framhaldssögunnar um Najac, 10 ára dreng frá Haiti sem vinnur þegar sagan hefst við að sauma fótbolta í verksmiðju í heimalandi sínu. Þá var sungið af krafti, leikritið um Hermann 97 var flutt og í lokin heyrðu strákarnir sögu Jesú um Miskunnsama samverjann (úr 10. kafla Lúkasarguðspjalls).

Örfáir drengir fengu heimþráreinkenni (smá maga- og höfuðverk) fyrir svefninn, en það er svo sem eðlilegt á nýjum stað. Flestir drengirnir sofnuðu þó fljótt. Nú í morgun voru enda engir drengir með hausverk eða magaverk, og allir tilbúnir að takast á við nýjan og spennandi dag.

Morguninn hófst samkvæmt venju á fánahyllingu og Biblíulestri, þar sem við ræddum m.a. um mikilvægi þess að kynnast ekki aðeins eigin trúarhefð heldur einnig annarra. Enda væri gagnkvæmur skilningur á okkar eigin hefðum og hefðum annarra forsenda vináttu og friðar. Hvort sem fólk er kristið, trúlaust, múslimar, hindúar eða búddistar, þá segja trúarskoðanir eða upplifanir alls ekki til um hvort viðkomandi sé góð manneskja. Það eru enda góðar manneskjur í öllum trúarbrögðum og lífskoðanahópum og öll trúarbrögð og lífskoðanir geta verið notuð til réttlætingar á slæmum hlutum. Í því samhengi minntum við drengina á að meira að segja hvert og eitt okkar í Vatnaskógi værum fær um að gera bæði góða og slæma hluti, og værum þannig hvorki algóð né alslæm.

Aðeins með því að kynnast öðrum og læra um hugmyndir þeirra, hefðir þeirra og venjur getum við skilið náunga okkar. Það væri þó mikilvægt fyrir þá að skilja að þegar kemur að trúaruppeldi og -fræðslu þá er Vatnaskógur vettvangur fyrir fræðslu og upplifun af kristinni hefð og kristinni trú, enda á starfsfólkið á staðnum sameiginlegt að kalla sig kristið.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson

 

E.s. Fréttir af flokknum verða væntanlega ekki jafnguðfræðilegar næstu daga, en meðan ég man, drengirnir fengu kjötbollur í hádegismat í gær, kökusneið og brauðbollu í kaffinu, hakksúpu í kvöldmat og ávexti í kvöldkaffi. Í morgun var boðið upp á Cheerios og kornflögur í mjólk og súrmjólk.

Fræðsluinnlegg dagsins

Ef foreldrar hafa áhuga á að kynnast þeirri hugmyndafræði og nálgun sem við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá, þá er hér smá innlegg.

Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta drengjanna er við hæfi að skrifa örfá orð um hvernig þessi tilfinning lýsir sér. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg og viðbrögð drengjanna eru oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Drengirnir hafa tilhneigingu til að koma með ásakanir, loka sig af, reiðast og nota samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Oft fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) þó stundum birtist líkamlega vanlíðanin í hausverk eða stirðleika í liðum. 

Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar, sem þeir vita ekki hvernig er hægt að takast á við.

Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að  tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að hjálpa barninu að njóta sín.

Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðuninni að tækifærunum.

Við trúum því að þessi reynsla drengjanna, að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó þeir viðurkenni hana og gangist við henni, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.