Þegar við vöknuðum í gærmorgun leit út fyrir ágætt bátaveður. Strákarnir byrjuðu á bátunum strax upp úr 10:30, en sumir áttu reyndar í erfiðleikum með goluna, enda örlítið hvassara út á vatninu en við fjöruna. Við ákváðum því að slá bátsferðum á frest milli hádegisverðar og kaffitíma, þess í stað var boðið upp á hópleiki, knattspyrnu, frjálsar íþróttir, smíðastofu og ýmislegt fleira. Eftir kaffitíma ákváðum við að bjóða upp á báta og ný, enda orðið blankalogn og eins buðum við drengjunum að vaða/synda í vatninu sem var gífurlega vinsælt þrátt fyrir að það væri helst til kalt fyrir minn smekk.

Það var þó alls ekki eina dagskráin, við buðum áfram upp á útileiki og knattspyrnu, smíðastofan var opin og einnig íþróttahúsið.

Á kvöldvöku hélt framhaldssagan um drenginn Najac áfram, við lærðum um fyrirgefninguna og Birkir foringi sagði frá starfi íslenskra kristniboða í Eþíópíu, en Birkir bjó með foreldrum sínum í Eþíópíu þegar hann var barn.

Í morgun töluðum við síðan stuttlega um uppbyggingu Biblíunnar og mikilvægi þess að vera læs á Biblíusögur og texta. Þannig var nefnt, reyndar í gær, hvernig Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar byggir á Davíðssálmi 90 og í einhverjum Biblíuhópum töluðum við um mikilvægi þess að þekkja til sögunnar um Davíð og Golíat til að skilja fjölmiðlaumfjöllun um karlalið Englands og Íslands í knattspyrnu.

Framundan í dag eru bátar og smíðaverkstæði, mannlegt fótboltaspil, kassabílarallý og hin gífurlega vinsæli hermannaleikur. Í tengslum við hermannaleikinn er mikilvægt að taka fram að hér í Vatnaskógi hefur verið misvirk umræða í yfir 15 ár milli starfsfólks um hvort leikurinn sé viðeigandi í kristilegum sumarbúðum, m.a. vegna nafnsins og þess hvort hann ýti undir stríðshetjudýrkun. Þannig var hluti starfsmannanámskeiðs vorið 2001, notaðar í umræður um kosti og galla leiksins undir stjórn guðfræðimenntaðs fagaðila sem var gagnrýnin á orðanotkun og áherslur. Síðan þá hefur umræðan verið tekin upp reglulega og nú síðast á starfsmannafundi í Vatnaskógi nú í morgun.

Í þessu samhengi er rétt að taka fram að hernaðartengt tungutak á sér langa hefð í sögu KFUM og KFUK á Íslandi meðal annars í sálmum eins og Áfram Kristsmenn Krossmenn og Sjáið merkið, Kristur kemur. Þrátt fyrir að ég hafi verið fagaðilinn sem stýrði umræðunum fyrir nær 15 árum þá er leikurinn enn hluti af dagskránni hjá okkur og verður í boði eftir hádegi með þátttöku allra drengjanna á staðnum, enda er fjörið og stemmningin gífurlega mikil fyrir þessari hefð í starfinu.

Hermannaleikurinn er í raun aðeins tveggja liða eltingarleikur, þar sem hvort lið um sig fær armband og klemmur á upphandlegg og drengirnir keppast um að kippa klemmunum hvor af öðrum án þess að meiða andstæðinginn. Ef drengirnir missa klemmuna, geta þeir haldið heim á bækistöð liðs síns, fengið nýja klemmu og haldið áfram leiknum. Það lið sem safnar fleiri klemmum sigrar.

Meðvitund starfsmanna um gagnrýni á leikinn og þátttaka í umræðum um kosti og galla þess að bjóða upp á þennan dagskrárlið er dæmi um spennandi og gróskumikla umræðu meðal starfsmanna sem leitast stöðugt við að bæta starfið í sumarbúðunum. Einhverjum kann að finnast að rétt niðurstaða skipti meira máli en hvernig staðið er að umræðunni, það er hins vegar mín trú að vönduð lýðræðisleg umræða sé að öðru jöfnu grundvallarforsenda þess að starfið í Skóginum þróist á sem vandaðastan veg.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.

Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson

E.s. Myndir frá 4. flokki í Vatnaskógi birtast á vefslóðinni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157669774466071.