Það rigndi allhressilega á drengina í miðjum hermannaleiknum í gær auk þess sem að drengirnir heyrðu eina þrumu dynja í Svínadalnum meðan leikurinn var í gangi. Afleiðing rigningarskúrsins var að nú höfðu drengirnir enn eitt sett af blautum fötum, en sumir drengjana eru byrjaðir að kvarta yfir fataskorti og einhverjir þurfa að notast við plastpoka í þeim skóm sem eru minnst blautir, til að blotna ekki í fæturna. En eins og segir í einum söngnum sem við syngjum hér á kvöldvökum „Enginn er verri þótt ‘ann vökni ögn.“
Þrír af ungu sjálfboðaliðunum okkar, Mirra, Katrín og Helga Bryndís opnuðu listasmiðju um miðjan dag í gær þar sem drengirnir geta unnið með perl, liti og málningu. Einhverjir nýttu tækifærið til að mála það sem þeir höfðu smíðað á smíðastofunni okkar á meðan aðrir nýttu tækifærið til að vinna að margskonar listaverkum. Þá buðum við drengjunum að fara í heita potta eftir hermannaleikinn það sem eftir lifði dagsins í gær og voru fjölmargir sem nýttu sér það að losna við rigningarhrollinn eftir leikinn í heitu pottunum. Bátarnir eru ennþá vinsælir, það var aftur boðið upp á leynifélagið og þá voru fjölbreytt önnur verkefni í gangi yfir daginn.
Á kvöldvöku var boðið upp á hæfileikasýningu þar sem drengirnir sýndu margs konar hæfileika. Þá var sögð sagan af því þegar Jesús mettaði þúsundir með fimm brauðum og tveimur fiskum, sem var nesti ungs drengs sem treysti Jesús til að nýta sem best nestið sitt. Útlegging Ísaks foringja tengdi saman frásögnina og hæfileikasýninguna og spurði drengina í flokknum hvernig þeir vildu nýta sem best þá fjölmörgu og um margt stórbrotnu hæfileika og gjafir sem þeir búa allir yfir.
Annað kvöldið í röð buðum við síðan þeim drengjum sem vildu upp á bænastund í kapellunni fyrir svefninn.
Dagurinn í dag byrjaði vel þrátt fyrir hávaðarok. Á Biblíulestrinum nú í morgun töluðum við um þá hugmynd kristinnar kenningar að við séum öll viðfang elsku Guðs og ekkert geti gert okkur viðskila við Skaparann. Þannig séum við ekki kölluð til að koma vel fram við náungann til þess að ávinna okkur velþóknun Guðs, Guð elski okkur sama hvað. Góð verk eiga ekki að snúast um umbun og ágóða heldur eigi að spretta af þakklæti vegna þess að við séum elskuð og við viljum þar af leiðandi deila þeirri elsku til annarra.
Meðal þess sem er á dagskrá í dag er spjótkast og smíðastofa, listasmiðja og púlmót, brennó og skotbolti auk þess sem við stefnum á góða gönguferð eftir hádegi.
Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson
E.s. Myndir frá 4. flokki í Vatnaskógi birtast á vefslóðinni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157669774466071. Því miður voru teknar mjög fáar myndir í gær, enda voru ljósmyndarar flokksins uppteknir við að setja upp og stýra listasmiðju. Við náum vonandi að bæta úr því á morgun.