Nú er verulega farið að styttast í fjórða flokki í Vatnaskógi, en í dag er veisludagur flokksins þar sem boðið verður upp á knattspyrnuleik drengja og starfsmanna, og þá munu landslið og stjörnulið etja kappi í sömu íþrótt. Það verður boðið upp á brekkuhlaup, heitu pottarnir verða opnir, listasmiðjan verður á sínum stað, smíðaverkstæðið og íþróttahúsið svo fátt eitt sé nefnt. Það væri ofsagt að veðrið leiki við okkur hér í Vatnaskógi en í dag er þriðji dagurinn þar sem við bjóðum ekki upp á báta vegna norðaustanáttar. Það er einnig fremur kalt þannig að áherslan verður á margvíslega innidagskrá.
Síðasta sólarhringinn hefur verið fjölbreytt dagskrá þar sem utan við hefðbundin dagskrártilboð þá var boðið upp gönguferð, spjótkast, poolmóti, hástökki og sögustund. Í gærkvöldi fundum við að drengirnir voru orðnir mjög þreyttir og ákváðum flestum drengjunum til mikillar gleði að seinka því að vekja drengina um 30 mínútur. Að öðru jöfnu vekjum við þá klukkan hálf níu, en í dag og líklegast á morgun vekjum við þá klukkan níu (Þegar þetta er skrifað 8:51 eru drengirnir reyndar margir að vakna að sjálfsdáðum).
Við ákváðum í upphafi flokksins að bjóða drengjunum ekki upp á að horfa á knattspyrnuleikina í átta liða úrslitum EM, en leyfa þeim að spara knattspyrnuáhorf fram á sunnudagskvöld. Einu athugasemdirnar vegna þessarar ákvörðunar hafa komið frá starfsfólki og snúast fyrst og fremst um leikinn í kvöld milli Þjóðverja og Ítala. Á meðan sá leikur fer fram í kvöld verða drengirnir í veislukvöldverði hér í Vatnaskógi og fara síðan á veglega veislukvöldvöku þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá, við afhendum drengjunum viðurkenningar fyrir góðan árangur, boðið verður upp á Biblíuspurningakeppni, sögunni um Najac líkur, starfsmenn bjóða upp á leikrit og dagskrárliðirnir Skonrokk og Sjónvarp Lindarrjóður verða á sínum stað.
Hver einasti flokkur í Vatnaskógi er einstök upplifun, dagskrártilboð eru aðlöguð að drengjahópnum sem við höfum og því sem veðrið kastar að okkur. Eins og ég hef áður sagt þá leitumst við stöðugt að því að gera gott starf betra og ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.
Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson
E.s. Myndir frá 4. flokki í Vatnaskógi birtast á vefslóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157669774466071. Eins og foreldrar hafa væntanlega tekið eftir höfum við bætt við fáum nýjum myndum síðustu tvo sólarhringa. Við vonumst til að bæta úr því síðar í dag. Ljósmyndin með þessari frétt er frá Hermannaleiknum fyrir tveimur dögum.