Fyrsti dagurinn í Vatnaskógi gekk mjög vel. Dagskráin var venju samkvæmt mjög fjölbreytt og boðið upp á mikinn fjölda dagskrárliða við allra hæfi. Þythokkímót og knattspyrna, bátar og górilluísbjarnaveiðar, kúluvarp og listasmiðja voru á meðal hátt í annars tug spennandi tilboða sem stóðu drengjunum til boða.
Þegar leið á gærdaginn brast á með allri snarpri norðaustanátt, sem olli því að við þurftum að hvíla bátana, enda var vatnið orðið hvítfyssandi um kvöldmatarleitið.
Á kvöldvökunni var boðið upp á leikrit og drengjunum kynnt stuttlega saga KFUM og KFUK á Íslandi, þá var boðið upp mikinn og öflugan söng auk bikarakynningar þar sem drengjunum var sagt frá ýmsum keppnum sem boðið verður upp á í flokknum.
Nú í morgunsárið verðum við með svokallaða Skógarmannaguðsþjónustu í sal Gamla skála, þar sem við kynnum á einfaldan hátt hefðbundið guðsþjónustuform fyrir drengjunum. Framundan í dag verður síðan áframhaldandi spennandi dagskrá.
Núna eru fyrstu myndir úr flokknum á vefinn. Hægt er að nálgast þær á slóðinni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972
Myndir úr flokknum
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157670180084972
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.
Með kveðju úr Skóginum,
Halldór Elías Guðmundsson
—
Fræðsluinnlegg á fyrsta degi
Rétt er að taka fram að í flokkum eins og þeim sem er núna í gangi, þ.e. flokki fyrir 11-13 ára er að öðru jöfnu fremur lítið um heimþrá, þó vissulega komi hún fyrir.
Ef foreldrar hafa áhuga á að kynnast þeirri hugmyndafræði og nálgun sem við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá, þá er hér smá innlegg.
Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta drengjanna er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg og viðbrögð drengjanna eru oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Drengirnir hafa tilhneigingu til að koma með ásakanir, loka sig af, reiðast og nota samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Oft fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) þó stundum birtist líkamlega vanlíðanin í hausverk eða stirðleika í liðum.
Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar, sem þeir vita ekki hvernig er hægt að takast á við.
Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að hjálpa barninu að njóta sín.
Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðuninni að tækifærunum.
Við trúum því að þessi reynsla drengjanna, að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó þeir viðurkenni hana og gangist við henni, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.